Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 17:53:35 (671)

1998-10-22 17:53:35# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. um að eignarrétturinn á lífsýnum ætti að vera augljós og óumdeildur, þ.e. að gefandinn eða sá sem leggur til lífsýnið sé eigandinn og þannig verði að halda á málinu.

Á sama hátt tel ég að upplýsingar sem sjúklingur veitir lækni og færðar eru inn í sjúkraskrá sem upplýsing frá sjúklingi séu eign sjúklingsins. Kringum þetta hefur hæstv. ráðherra verið að reyna að fara eins og köttur í kringum heitan graut í frv. sínu um gagnagrunn á heilbrigðissviði í sambandi við eignarréttarmálið, þ.e. að tala um sjúkraskrárnar sem pappír væntanlega með því sem á honum stendur, og að það sé einskismannseign, aðeins sé um að ræða vörsluskylda af hálfu heilbrigiðisstofnana. En þetta gengur ekki upp. Og lögfræðiálitið sem hæstv. ráðherra lagði fram frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni, að ég held, sem einum höfundi þess, byggði einmitt á þessu viðhorfi um pappírsgagnið en ekki því hver ætti upplýsingarnar, upplýsingar sem sjúklingurinn veitir lækninum um sjálfan sig og færðar eru í sjúkraskrá. Þær eru eign sjúklingsins og ótvírætt lífsýnin, eins og fram kom og er sjónarmið hv. þm., þannig að við erum alveg sammála um þetta. Þetta eru grundvallarþættir.

Þetta mál er rétt að fara af stað en í ljósi þeirra álitaefna og deilna sem líkur eru á að rísi út af þessum málum með viðeigandi málaferlum hugsanlega o.s.frv., þá er nauðsynlegt fyrir Alþingi að fara ofan í saumana á svona grundvallaratriðum áður en málin eru send lengra og gerð að lögum.