Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:46:17 (693)

1998-10-22 18:46:17# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sú tortryggni sem fram hefur komið í umræðunni, a.m.k. af minni hálfu, hefur fyrst og fremst sprottið í seinni hluta umræðunnar vegna þess að ég hef varpað fram einni afar þýðingarmikilli spurningu sem varðar nauðsyn þess að þjónustusýni yrðu gerð að varanlegum hluta í lífsýnasöfnum og nýtt í allt öðrum tilgangi en þau voru tekin. Hæstv. ráðherra hefur ekki getað svarað þessu.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er þetta frv. upphaflega samið af siðaráði landlæknis, síðan er um það vélað af sérstakri nefnd og það er lagt fyrir í þessu formi. Það getur vel verið eins og oft gerist að hæstv. ráðherra hafi sjálf ekki hugsað málið til þrautar. Þess vegna geti hún ekki svarað þessu. Þetta er auðvitað ein af þeim spurningum sem við munum velta upp í heilbr.- og trn.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þarna sé verið að opna farveg til þess að ná miklum fjölda lífsýna og það skiptir máli í því samhengi að frv. virðist vera búið til með það fyrir augum að skapa falskt öryggi, þ.e. sagt er að ekki eigi að taka þessa þjónustusýni og gera þau að varanlegu rannsóknarefni og það á ekki að nota þau til óskyldra rannsókna og það er sagt að það eigi að eyða þeim. En svo segir berum orðum í 2. gr. að heimilt sé að taka það og setja það í lífsýnasafn og nota það til annarra og óskyldra rannsókna. Og það vekur vissulega grunsemdir að það er gert mjög erfitt fyrir þann sem veitir sýnið að synja þess vegna þess að það er lítið gert til að upplýsa hann um rétt sinn.

Aðeins í lokin, herra forseti, ætla ég að leyfa mér að upplýsa hæstv. heilbrrh. um að talsverður fjöldi manna sem til að mynda gefur blóð í Blóðbankanum neitar því alfarið að nokkrar upplýsingar um sig verði skráðar inn á tölvur og það skiptir máli að vita af þessu þegar við erum að samþykkja frv. sem gerði það e.t.v. að verkum að allir blóðgjafar Blóðbankans kynnu að vera orpnir undir ákvæði um að þjónustusýni yrðu tekin án þess að þeir vissu af því.