Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:15:22 (699)

1998-10-22 19:15:22# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að fram komin tillaga sé algerlega óþörf og skal færa fyrir því nokkur rök. Hún er að vísu kærkomin fyrir þá sem sælast eftir myndarlegum ríkisreknum fyrirtækjum. Við höfum séð það á undanförnum missirum að það er ekki ónýtt að komast í Póst og síma, bankana o.s.frv. þannig að eflaust eru mörg öfl í samfélaginu hlynnt því eins og flutningsmaður, hv. þm. Guðlaugur Þórðarson orðar það að færa hlutina í frjálsræðisátt, það á eflaust mikinn byr.

Hvers vegna tel ég þetta óþarfa breytingar? Það er vegna þess að ég tel að miðað við núverandi reglur um starfsemi ÁTVR sé opið fyrir þær breytingar á þjónustunni sem langflestir kalla eftir. Það er opið fyrir þá möguleika að opnuð séu útibú í hinum dreifðu byggðum. Menn hafa sett það fyrir sig að langt sé að sækja búsið og það þurfi að fara kannski svo tugum kílómetra skiptir til að komast í ÁTVR-búð. En manni virðist sem ÁTVR dragi lappirnar svolítið og það er náttúrlega undir hæstv. fjmrh. komið líka að opna fyrir nútímalegri viðskiptahætti hjá ÁTVR. Það eimir kannski eftir af starfsháttum þar að þeir hafi markaðinn hvort eð er og þurfi ekki að þjóna betur. En ég tel þetta að miklu leyti bara praktísk mál miðað við núverandi reglur um starfsemina að verða við þeim óskum landsmanna um að bjóða þjónustuna víðar og það eru formúlur fyrir því að slíkar verslanir eru settar upp jafnvel í samstarfi eða samvinnu við aðra, t.d. í minni byggðarlögum.

Það er annað sem mig langar til að benda á. Ég tel að miðað við ástandið í vímuefnanotkun landsmanna, sérstaklega ungs fólks sem mikið er búið að ræða um á undanförnum missirum, sé óþarfi að taka stóran hluta vímuefnanotkunar út fyrir sviga og ætla að fara að blása í herlúðra og segja að það verði enn þá auðveldara að komast yfir vímuefnin og þá á ég við áfengið. Þetta er 10 milljarða dæmi sem við erum að tala um. Eins og þingheimi er ljóst eru flestir sammála um að við höfum engin tök á vímuefnanotkun eins og hún er í dag, og þá á ég við hörð og sterk vímuefni, og samfélagið virðist á engan hátt í stakk búið til að taka á þeim málum eða tækla þau. Það þarf a.m.k. að sannfæra mig betur um það eða gera mér betri grein fyrir því að við séum með þau mál í höfn og í betri farvegi áður en menn fara í frjálsræðisátt í sambandi við ÁTVR.

Ég legg megináherslu á það að ef þær reglur sem ÁTVR vinnur eftir eru notaðar á réttan hátt og komið til móts við kröfur manna um að fá þjónustuna víðar og ÁTVR sjálft innan frá og fjmrn. noti sér þá möguleika sem eru innan þess ramma sem ÁTVR er settur, þá mun fólki finnast að sú þjónusta sé fullboðleg sem þar er veitt og raunar mæti þeim þörfum sem við þurfum í sambandi við innkaup á áfengum drykkjum í dag.