Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:25:39 (703)

1998-10-22 19:25:39# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi að innan ramma stofnunarinnar ÁTVR væri möguleiki á að fjölga útsölustöðum. Ég tel að það sé hið besta mál, sérstaklega þar sem menn hafa samþykkt það heima fyrir og er alveg tilbúinn að styðja slíkt. En ég vil benda hv. 2. þm. Vesturl., Guðlaugi Þórðarsyni, á það að við erum ekki að tala um venjulega vöru, við erum að tala um vímuefni. Áfengi er vímuefni, tóbak er vímuefni og síðan allt annað sem ólöglegt er. Það er full ástæða fyrir ríki, sem ber hitann og þungann af öllum afleiðingum ef eitthvað út af bregður hjá einstaklingnum, að hafa töluverðan hemil á því hvernig menn fara í slík mál varðandi markaðssetningu og annað. Þess vegna gilda allt önnur lögmál um vímuefni, svo sem áfengi, dreifingu, auglýsingu, aðgang o.s.frv. en um alla aðra vöru sem er á boðstólum í landinu. Að því leyti til er ég ekki hlynntur því að menn opni frjálshyggjuflóðgáttir sjálfstæðismanna sem hafa gengið yfir á svo mörgum öðrum sviðum. Ég held að sjálfstæðismenn ættu að taka pásu í frjálshyggjubardúsinu, a.m.k. í þeim málum sem varða vímuefni fyrir landsmenn.