Greiðslur í þróunarsjóð EES

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:15:51 (720)

1998-11-02 15:15:51# 123. lþ. 17.2 fundur 79#B greiðslur í þróunarsjóð EES# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Á fundi sem var fyrir stuttu síðan um þetta mál var afstaða Íslands, Noregs og Liechtensteins alveg skýr. Við héldum því fram, eins og hv. þm. sagði, að þessar greiðslur hefðu verið samningsbundnar og samkvæmt samningum hefðu þær átt að falla niður og ekki er gert ráð fyrir þeim í fjárlögum fyrir árið 1999. Þetta er afstaða okkar og hún er mjög skýr. Hins vegar var ósamkomulag um þessa afstöðu á fundi sem haldinn var í Lúxemborg og Evrópusambandið var með annan skilning en EFTA-ríkin á þessum málum.

Að því er varðar stækkunarferlið er um allt annað mál að ræða eins og hv. þm. sagði. Við höfum ekki neitað því fyrir fram að það geti ekki komið til þess að EFTA-þjóðirnar taki einhvern þátt í því með einhvers konar greiðslum. Það verður þá að vera alveg ljóst að við fáum réttindi þannig að við séum ekki aðeins að taka á okkur skyldur heldur fáum einnig réttindi á móti. Við teljum það vera annað mál og höfum út af fyrir sig opnað á að slíkt geti komið til greina án þess að það hafi á nokkurn hátt verið útfært nákvæmlega í hverju það gæti falist. Það verður að koma í ljós á síðari stigum eftir að samningaviðræður hafa hafist.

Ríkisstjórnin hefur fjallað um þetta mál og utanrrn. fengið umboð til þess að taka þátt í samningaviðræðum sem gengju út á hluti er varða stækkunarferlið.