Greiðslur í þróunarsjóð EES

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:20:43 (723)

1998-11-02 15:20:43# 123. lþ. 17.2 fundur 79#B greiðslur í þróunarsjóð EES# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ítreka að ég held að hér sé á ferðinni mjög stórt mál sem í raun og veru væri óhjákvæmilegt að hafa lengri tíma til að ræða og svo vel vill til að hann gefst síðar í þessari viku þegar utanríkismál verða á dagskrá. En ég get ekki séð annað en það sé mjög stór ákvörðun að ákveða yfir höfuð að fara í samningaviðræður um þátttöku Íslands í greiðslu kostnaðar vegna stækkunarinnar og ég set stórt spurningarmerki við það að við hefðum átt að gera það að óathuguðu máli eða lítt athuguðu máli. Ég held að menn hafi dálítið hlaupið á sig.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvaða mynd er verið að draga upp af Evrópusambandinu sem samningsaðila og samstarfsaðila þegar kröfugerð Spánverja er studd af flestum aðildarríkjum sambandsins, þegar menn eru með klárlega tímabundinn samning um greiðslur í þróunarsjóðinn í fjögur ár og svo þegar það tímabil er uppi, þá koma menn og segja: Nei, þið skuluð halda áfram. Er ekki verið að draga upp þá mynd að þarna sé um samnings- og samstarfsaðila að ræða sem sé dálítið erfitt að eiga við og ég spyr: Hvað kemur næst? Hvað verðum við látin borga næst? Þarf ekki ríkisstjórnin að gæta aðeins að sér í þessum efnum?