Kjaradeila meinatækna

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:25:29 (726)

1998-11-02 15:25:29# 123. lþ. 17.2 fundur 80#B kjaradeila meinatækna# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að allir geri sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða kjaradeilu í hefðbundnum skilningi. Það er kjarasamningur í gildi milli ríkisins og þessara starfsmanna sem var gerður á eðlilegan hátt og samþykktur í viðkomandi félagi. Það gildir líka úrskurður sem kveðinn var upp eftir að aðilar náðu ekki saman í aðlögunarnefnd um þann þátt málsins sem lýtur að því, og framkvæmd þessa samnings gengur að því er virðist allvel á Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Hins vegar er hópur starfsmanna á Landspítalanum sem hefur greinilega ekki viljað sætta sig við þá niðurstöðu og hefur sagt upp störfum. Uppsagnarfrestur þessara starfsmanna rann út um helgina. Þetta er hin formlega hlið málsins.

Ég geri ráð fyrir því að yfirmenn á Ríkisspítölunum vinni nú baki brotnu við að reyna að leysa þessa deilu og ég veit að svo er. Það er verið að reyna að finna lausn á þessari erfiðu deilu. En formlega séð hafa þessir starfsmenn nú látið af störfum vegna sinna eigin uppsagna.

Ég held hins vegar að öllum megi vera ljóst að svona mál leysast ekki, hvað sem einstakir læknar á Landspítalanum segja um það, í sölum Alþingis. Meira er í raun og veru ekki hægt að segja á þessum vettvangi eða hafa uppi um það frekari orð. Það er algerlega tilefnislaust. En ég verð þó að segja að ég harma það og ég vona að fleiri þingmenn taki sér ekki slík orð í munn, að ganga inn í þingsal með fullyrðingar um það að einstakir sjúklingar séu í lífshættu vegna þessa máls. Það eru fullyrðingar sem ekkert okkar getur staðið við.