Kjaradeila meinatækna

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:30:14 (729)

1998-11-02 15:30:14# 123. lþ. 17.2 fundur 80#B kjaradeila meinatækna# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að deilan er í hnút. Meinatæknar sætta sig ekki við þau tilboð sem þeir hafa fengið. Ljóst er að meira fjármagn þarf til.

Er hæstv. ráðherra tilbúinn að setja aukið fjármagn til þess að leysa deiluna? Það er eina leiðin. Eða verður forgangsraðað upp á nýtt á Landspítalanum og eitthvað tekið þar út af verkefnaskrá þannig að hægt verði að leysa þessi mál? Það er greinilega ófremdarástand.

Vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði um Sjúkrahús Reykjavíkur og meinatæknana þar eru þeir ekki sáttari við kjör sín en svo að 16 meinatæknar hafa hætt þar störfum undanfarið vegna þess hve kjörin eru bágborin og léleg á sjúkrastofnunum okkar miðað við kjör annars staðar á heilbrigðisstofnunum og á hinum almenna markaði.

Ég kalla því eftir þessu, herra forseti: Mun koma inn aukið fjármagn? Vegna þess sem kom fram í fréttum í hádeginu um að Ríkisspítalarnir séu tilbúnir að senda til rannsókna erlendis spyr ég einnig: Er til fjármagn þannig að hægt sé að senda til rannsóknastofnana erlendis þegar ekki finnast peningar til að veita meinatæknum, sem eru í kjaradeilu, almennileg kjör?