Jafnréttisstefna fjármálaráðuneytis og stofnana þess

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:41:32 (737)

1998-11-02 15:41:32# 123. lþ. 17.2 fundur 82#B jafnréttisstefna fjármálaráðuneytis og stofnana þess# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég hef ekki þennan bækling við höndina og þar af leiðandi ekki bls. 13. (BH: Viltu fá hann lánaðan?) Ég get hins vegar fullyrt að auðvitað er reynt í einu og öllu af hálfu fjmrn. að standa við þau markmið sem þarna eru sett fram.

Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess að hægt sé að gefa nokkurt tölulegt yfirlit eða eitthvað þess háttar í óundirbúinni fsp. um þessi mál. Það er meginregla að störf séu auglýst, bæði í fjmrn. og annars staðar í ríkiskerfinu, og ég veit ekki betur en að þrátt fyrir allt hafi þokast í rétta átt í þeim málum sem fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni.

En það er alveg sjálfsagt að kanna það betur og auðvitað má alltaf gera betur í þessum málum eins og öðrum. Ég hygg að tilgangur fyrirspyrjanda sé ekki að gera ágreining um þau markmið sem hérna er lýst á bls. 13, heldur þvert á móti að reyna að leggja sitt af mörkum til þess að ýta við því að menn reyni að ná þessum markmiðum og þá erum við alveg hjartanlega sammála um þessi mál.