Aðgerðir í þágu sauðfjárbænda vegna verðfalls á gærum

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:46:10 (741)

1998-11-02 15:46:10# 123. lþ. 17.2 fundur 83#B aðgerðir í þágu sauðfjárbænda vegna verðfalls á gærum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda hefur orðið verulegt verðfall á gærum frá því var í fyrra. Að vísu er rétt að benda á að á seinasta ári voru gærur óvenjuverðháar, voru allt að þriðjungi hærri en þær hafa verið að meðaltali undanfarin ár. Það leysir þó ekki vandann sem nú blasir við þegar verðfallið er eins og fyrirspyrjandi lýsti. Ég hef ekki neinu við það að bæta, það er sannarlega mikið áfall. Ég held að á þessu stigi sé mest um vert að okkur takist að viðhalda skinnaiðnaði landsins sem hefur styrkst á undanförnum árum, m.a. vegna þess að iðnaðurinn hefur gengið betur og verð skinnanna hækkað. Áfallið sem er að mestu leyti, vegna efnahagsástands í Asíu og Rússlandi, er auðvitað þess eðlis að mikilvægt er að þreyja þorrann og góuna ef svo má að orði komast.

Staða landbúnaðar hefur nýlega verið til umræðu í ríkisstjórninni í tengslum við nýútkomna skýrslu um afkomu í landbúnaði, breytingar á undanförnum árum og hugmyndir og tillögur um aðgerðir til úrbóta. Reyndar sýnist sitt hverjum um þær hugmyndir sem þar eru settar fram eins og þekkt er úr umræðunni í fjölmiðlum að undanförnu. Ég held að þar séu ýmsar hugmyndir sem nauðsynlegt er að skoða vel. Þær munu koma til athugunar í tengslum við endurskoðun á sauðfjársamningnum sem helst þarf að hefjast á þessu ári eða að minnsta kosti í vetur.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að verulegar fjárupphæðir komi til viðbótar inn í samninginn til þess að mæta þessu áfalli sérstaklega. Þetta er nokkuð sem þarf að taka til skoðunar í heildarendurskoðun samningsins. Við erum að líta nánar á þessi mál. Það má minna á verulegt áfall í loðdýraræktinni á seinustu dögum og vikum. Það mál er einnig til sérstakrar skoðunar hjá ríkisstjórninni.