Virðisaukaskattur

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:09:20 (749)

1998-11-02 16:09:20# 123. lþ. 17.13 fundur 46. mál: #A virðisaukaskattur# (veiðileyfi í ám og vötnum) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er galli við virðisaukaskattskerfi okkar hve það er margbætt og það vantar í það vissa hluti. Í reynd er það núna með fjórum gjaldflokkum. Það er í fyrsta lagi núll prósent skattur á nokkur atriði, þar á meðal það sem hér um ræðir, síðan er um 10% skattur á vinnu sem er á byggingarstað þar sem hægt er að draga 60% af skattinum frá. Svo er sem kunnugt er 14% skattur á matvöru og fleiri þætti og síðan 24,5% skattur á restina.

Ég hef verið mjög á móti því að hafa margar undanþágur frá skattkerfum. Ég vil hafa skattkerfin einföld og ég vil hafa þau altæk. Ég fellst ekki á þau rök sem samkvæmt greinargerð hafa verið notuð á sínum tíma að þetta valdi tekjurýrnun hjá einhverjum aðilum. Vissulega veldur virðisaukaskattur tekjurýrnun hjá öllum fyrirtækjum sem þurfa að borga virðisaukaskatt þannig að ég tek heils hugar undir þetta frv. og vildi gjarnan að menn ynnu ötullega að því að reyna að gera virðisaukaskattinn altækan og almennan. Þá er hægt að lækka hann. Ég hef þá trú að ef hann lækkaði gæfi hann ríkissjóði meiri tekjur. Við erum nefnilega komin yfir markið í því hvað hægt er að leggja mikla skatta á atvinnulífið.