Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:20:38 (757)

1998-11-02 17:20:38# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mörg góð þingmál hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutt á þessu háa Alþingi en ekkert mál tel ég að hann hafi flutt hin seinni ár sem er jafnmerkt að inntaki og það mál sem hv. þm. mælti fyrir áðan. Gæði málsins markast m.a. af því að sú innblásna ræða, sem hv. 4. þm. Suðurl., Ísólfur Gylfi Pálmason, flutti málinu til stuðnings, sýnir að um er að ræða mál sem væri vel fallið til þess að sameina þjóðina, alla hluta hennar, jafnt hægri sem vinstri.

Herra forseti. Ég hef haldið svo margar ræður um Grænlendinga og nauðsyn þess að rækta hinar fornu sagnir og hin fornu tengsl sem lúta að samböndum okkar við Grænland að ég ætla ekki að setja á langa tölu hérna. Mig langar þó til að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þetta merka framtak. Það er aðallega tvennt sem ég vil færa inn í umræðuna.

Ég held að eitt af því sem enn er óritað af sögu Íslendinga felist einmitt í þeim rótum sem má rekja alla leið til Grænlands. Sjálfsmynd Íslendinga styðst að verulegu leyti við þá mynd sem við höfum af sjálfum okkur gegnum söguna. Hins vegar hefur sjaldnast komið fram í rituðum greiningum seinni tíma á tilurð Íslendingasagnanna og þróun þeirra, hversu ríkan þátt Grænland átti einmitt í gerð Íslendingasagnanna. Menn hafa stundum velt því fyrir sér, hvaðan sá auður kom og hvaða fótum stóð hann sem var undirrót þess að bændahöfðingjum og kirkjuhöfðingjum tókst að sjá um það mikla verk sem fólst í því að rita á bókfell og skinn þær bækur sem við köllum núna Íslendingasögurnar. Á þeirra tíma mælikvarða kostaði þetta gríðarlegt fjármagn og hvaða kom það? Hér á Íslandi var enginn sérstakur útflutningur á þessum tíma. Menn reru til fiskjar, og varla þó á þessum tíma, og þó að hlýskeið væri miklu meira en á seinni söguskeiðum þjóðarinnar var ekki um það að ræða að menn væru að flytja út landbúnaðarafurðir. En einhvers staðar fengu þeir fjármagnið sem þurfti til þess að standa straum af þessum sögum og tilurð þeirra.

Ég held því fram, herra forseti, og væri hægt að gera það í miklu lengra máli að þessi auður hafi komið frá Grænlandi. Hann hafi sprottið af fyrstu milliríkjaverslun sem eitthvað kvað að í sögu Íslendinga. Ljóst er að í kjölfar Eiríks rauða fóru fleiri frá Breiðafirði til Grænlands og siglingar stóðu á milli Vesturlands, aðallega Breiðafjarðar, og vesturstrandar Grænlands. Það er engum blöðum lengur um það að fletta að varningurinn sem þeir fluttu frá Grænlandi var fyrst og fremst ýmiss konar grænlenskar vörur, það var svörður, rostungshúðir, og það voru rostungstennur en það sem var kannski dýrmætast voru tennur náhvelanna. Í kringum það er líka merkileg saga vegna þess að það er 2.500 km leið frá þessum búsvæðum Íslendinganna á vesturströnd Grænlands og þangað sem náhvelin héldu sig. Það er hægt að færa að því sterk rök, m.a. rúnaristur allar götur frá árinu rétt eftir 1200, minnir mig, fremur en 1300 þar sem menn eru beinlínis að gefa til kynna að þarna hafi þeir verið staddir að aflíðandi vetri í miðju Grænlandi, að vísu út við strendur og það er ljóst að þessir menn höfðu vetursetu þar. Hvað voru þeir að gera þar? Þeir voru á leiðinni norður á náhvalaslóðirnar. Hægt er að færa rök að því að tennur merktar með sérstöku rauðu rúnaletri hafi verið fluttar m.a. til biskupakirkjunnar, Dómkirkjunnar í Lincoln og alla leið til Flórens. Þetta var hin merkasta vara. Þetta var horn einhyrningsins sem aldrei var til. Það voru náhvalatennur. Verðlagið á þessum tönnum þegar þær voru komnar út í Evrópu var gríðarlega hátt. Aðalsmaður í Flórens greiddi sem svaraði 16 kg gulls fyrir tvær slíkar tennur, að vísu fagurlega útskornar. Tannvarning með sams konar rauðum mörkum var hægt að finna m.a. í Orkahaug í Skotlandi og líka í haugum í grennd við Dyflinni. Ég held því fram, herra forseti, að arðurinn sem fékkst fyrir sölu á varningi af þessu tagi úti í Evrópu hafi verið grunnurinn fyrir því að bændahöfðingjar og kirkju tókst að ráðast í þessar miklu framkvæmdir.

Það er í fyrsta lagi þetta sem enn á eftir að færa inn í Íslandssöguna en það er líka annað. Við sjáum það, herra forseti, af lýsingum í Íslandssögunum, sem við köllum svo, að þar eru siglingaleiðir sem er lýst mjög nákvæmlega, m.a. til Írlands og að sjálfsögðu til Noregs, en þeir fóru líka til Frakklands. Þessir ágætu verslunarmenn sem allir áttu ættir sínar og uppruna við vestanvert landið í Breiðafirði fluttu út þessa vöru og þeir komu heim með arðinn. En þeir komu líka heim með annað. Þeir komu heim með bækur. Hægt er að sýna fram á það í dag að bókakostur klaustra og einstakra bændahöfðingja var miklu ríkari en menn hafa talið fram á allra síðustu áratugi. Hvaðan komu þessar bækur? Þær komu með þessum skipum. Sýnt hefur verið fram á það að jafnvel merkir kaflar eins og Íslendingabók, sú hin ágæta saga af Pöpum sem hér voru og skildu eftir bækur og bagla, er tekin upp úr írskum samtímaritum og það er ljóst að þessar bækur, þó að aldrei hafi fundist af þeim tetur né tangur, komu frá Írlandi með þessum kaupmönnum og komu hingað.

Í þriðja lagi, herra forseti, má benda á eitt til viðbótar. Þessi skip fluttu út íslensk ungmenni. Þau fluttu út blóma kynslóðar sinnar, syni ríkismanna og líka þá sem höfðu sýnt afburða næmni og þessir ungsveinar fóru til náms. Einn af þeim var Sæmundur fróði. Til baka komu þeir með þekkingu sem þurfti til þess að þætta saman ýmsa þekkingu af erlendum bókum, þekkingu sem þeir höfðu numið. Það var því í krafti þessara siglinga, herra forseti, sem ég held að skriftir Íslendingasagnanna hafi að verulegu leyti helgast. Hægt er að sýna fram á það að Íslendingasögurnar urðu að mestum hluta til við vestanvert landið og síðan dregur úr þessu á 13. öldinni, nákvæmlega þegar kuldaskeiðin koma og siglingarnar til Grænlands leggjast af. Auðvitað er þetta tilgáta og hún hefur verið sproksett af ýmsum góðum mönnum en háskólamenn á borð við Helga Guðmundsson málfræðing hafa fært afar skemmtileg og skáldlega fögur og sannfærandi rök fyrir þessari kenningu. Ég held að ef menn ætla að ráðast í ritun á sögu okkar þjóðarbrots sem varð eftir í Grænlandi, þá sé þetta eitt af rannsóknarefnunum. Þetta er eitt af því þar sem við eigum eftir að kanna til hlítar í okkar eigin sögu.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, herra forseti, að íslensku nýlendurnar í Grænlandi eigi miklu ríkari þátt í menningararfinum sem við státum af í dag en við gerum okkur grein fyrir. Við erum þess vegna ekki einungis að greiða skuld við þetta horfna þjóðarbrot sem enginn veit hvað varð um heldur erum við líka að rækta okkar eigin sögu eins og hún hefur síðan þróast í landinu með því samþykkja þá tillögu sem hv. þm. hefur lagt fram ásamt öðrum. Ég segi einungis: Mæli hann manna heilastur og megi hann leggja sem flestar slíkar tillögur en e.t.v. verja tíma sínum minna í ýmislegt annað.