Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:46:33 (761)

1998-11-02 17:46:33# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var að sönnu mjög hollt innlegg og góð ádrepa frá hv. þm. en honum skaust í einu og það er að ekki er við aðferðina að sakast í þessum efnum heldur túlkanir vísindamannanna sem ekki gæta sín þegar þeir fá tilteknar upplýsingar í hendur, eða öllu heldur oftúlkanir sem þetta er hreint og klárt dæmi um, þ.e. að sú staðreynd að fiskibein finnist ekki í öskuhaugunum þurfi ekki endilega að sanna að þau hafi ekki eftir sem áður verið í fæðunni. Það eina sem það segir er að þau fóru ekki á haugana. Menn verða auðvitað alltaf að gæta sín þó að aðferðin sem slík sé góð og það er enginn vafi á því að það má fá margar gagnlegar vísbendingar einmitt úr öskuhaugarannsóknunum. Þar getur verið ýmislegt að finna sem ekki finnst í sjálfum húsarústunum eðli málsins samkvæmt af því að það er flutt þaðan og fjarlægt.

Auðvitað þurfa menn alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að oftúlka ekki hlutina með þessum hætti og má svo sem nefna um það mörg dæmi, bæði skyld og óskyld. Sumt getur hafa breyst samtímis búsetunni sem veldur því að skekkjur geta komið fram ef menn gæta sín ekki í túlkunum. Svo vitum við að ýmislegt annað getur í gegnum tímans rás haft áhrif á rannsóknarefnið og valdið því að það lítur ekki eins út í dag og það gerði forðum. Ágætt dæmi um þetta eru t.d. rústirnar sjálfar í Grænlandi sem eru mjög misáberandi og mjög misupphlaðnar enn þann dag í dag. Við fyrstu sýn kann það að virðast þannig að húsakosturinn hafi verið mjög ólíkur að stærð og gerð, en þegar betur er að gáð er skýringin oftast nær sú að þær rústir sem liggja nálægt núverandi byggð eru að mestu leyti horfnar af þeim einföldu ástæðum að efniviðurinn hefur verið notaður í aðrar byggingar, en þær sem liggja fjær byggðum bólum eru betur varðveittar o.s.frv. Ótal dæmi af þessu tagi gætum við skemmt okkur við að rekja til kvölds ef forseti leyfði en ég held að aðalatriðið sé að þarna var ekki við aðferðina að sakast heldur óheppilegar túlkanir vísindamannanna.