Undirbúningur svara við fyrirspurnum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:47:03 (774)

1998-11-03 13:47:03# 123. lþ. 18.91 fundur 89#B undirbúningur svara við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég er fullkomlega sáttur við úrskurð forseta í þessum efnum en ég tek til máls á nýjan leik vegna orða hv. þm. Jóns Kristjánssonar því það var ákaflega merk yfirlýsing sem hann gaf úr þessum ræðustóli þar sem hann kvað það bera vott um íhygli hæstv. ráðherra að fara með væntanleg svör til Ríkisendurskoðunar og fá þau stimpluð þar áður en þau kæmu fyrir augu þingheims.

Ég spyr: Er það þannig sem við viljum hafa þetta? Ég vek athygli virðulegs forseta á því, sem hann auðvitað veit, að ríkisendurskoðandi heyrir undir þingið. Ef þingmenn vilja eiga orðastað við ríkisendurskoðanda eða spyrja hann gera þeir það beint. Þeir þurfa ekkert að fara í gegnum hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn um þau efni. Sannleikurinn er sá að þegar hv. þingmenn spyrja hæstv. ráðherra eiga hæstv. ráðherrar að svara því á eigin ábyrgð, eins og laganna hljóðan segir til um, en ekki hlaupa undir pilsfaldinn hjá ríkisendurskoðanda eins og mér virðist eiga að vera hér reglan fremur en undantekningin.

Ég mótmæli því algerlega þessu viðhorfi og þessum skilningi hv. þm. Jóns Kristjánssonar, forustumanns Framsfl. í þinginu í smáu og stóru, um að þannig eigi hlutir að ganga fram. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og lýsir miklum misskilningi. (Gripið fram í.) Hafi hann heyrt það eftir hæstv. viðskrh. að þannig ætlaði hann að hafa þetta í framtíðinni verður líka að vinda ofan af þessum misskilningi hæstv. iðnrh. og viðskrh. því þetta gengur þvert á venjur og reglur og gildandi lög. Við hv. þingmenn erum að spyrja hæstv. ráðherra og viljum að þeir svari en hlaupi ekki undir pilsfald ríkisendurskoðanda eða annarra úr embættismannakerfinu.