Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 14:16:22 (781)

1998-11-03 14:16:22# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin þó nokkuð óljós hafi verið. Að sjálfsögðu var hann ekki undir þau búinn. Ég fæ þau kannski seinna við tækifæri. Ég hef nú grun um að skuldbindingin sé ekki alveg svona há, en nógu há er hún samt og á þessum reiknigrundvelli er reiknað með 3,5% vöxtum. Þá vexti þarf að greiða til framtíðar á jafnafdrifaríkan hátt og þá vexti sem Íslendingar borga af barnaláninu fræga í Bretlandi sem ber 14% vexti ofan á pund. Þó að það lán komi ekki til greiðslu fyrr en eftir dúk og disk þá er það skuldbinding sem komandi kynslóðir koma til með að taka á sig. Það á jafnt við um þessa lífeyrisskuldbindingu og t.d. útgáfu á spariskírteinum sem ekki kemur til greiðslu á þessu ári heldur kannski eftir fimm, sex eða jafnvel tíu ár.

En til greiðslu kemur það samt fyrr en seinna, og það eru komandi kynslóðir sem munu borga þetta. Við þurfum vissulega að hafa áhyggjur af því hvað við eigum að leggja miklar byrðar á komandi kynslóðir.