Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 15:02:43 (785)

1998-11-03 15:02:43# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú flutt okkur fjáraukalög fyrir árið 1998 og eins og ég gat um áðan í andsvari þá eru þau að mestu leyti góð tíðindi, verulega góð tíðindi. Ég vil benda á mikilvægi fjáraukalaga sem eru staðfesting á fjárlögum og eiginlega mælikvarði á það hversu vel fjárlög hitta í mark þegar metnar eru alls konar breytingar í þjóðfélaginu og metnar eru ýmsar breytingar sem menn gera ráð fyrir, þ.e. spá. Fjáraukalagafrv. er alltaf spá, fjárlagafrv. sömuleiðis en fjáraukalög eru nær raunveruleikanum en fjárlögin og sýna hversu vel til tókst með fyrri spána.

Í þessum fjáraukalögum eru feiknalegar breytingar á þjóðhagsforsendum og þær koma fram á síðu 52 í þessum fjáraukalögum. Þar kemur t.d. fram að áætlað er að einkaneysla muni aukast um 10% í staðinn fyrir 5% eins og gert var ráð fyrir þegar fjárlögin voru lögð fram. Gert er ráð fyrir því að fjárfestingar aukist um 27,3% í staðinn 1,3%. Gert er ráð fyrir því að innflutningur vöru og þjónustu aukist um 22,6% í staðinn fyrir 5,9%. Það er mjög sjaldan sem maður sér svona miklar skekkjur í áætlunum en þar er vegna þess góðæris sem við búum við, óvenjumikillar hækkunar launa og var svo sem ekki vanþörf á þar sem íslensk laun voru orðin skammarlega lág. Eflaust eru margar ástæður fyrir því hverju þetta er að þakka, t.d. utanaðkomandi aðstæðum sem við höfum ekki áhrif á. En ég vil líka benda á að ríkisvaldið hefur verið að gera margar ráðstafanir til þess að bæta hag atvinnulífsins og það hefur væntanlega skilað sér.

Hér er gert ráð fyrir því að skattar af tekjum landsmanna hækki um 2,1 milljarð og það er jákvætt. Mér þykir mjög jákvætt að ríkissjóður fái stórauknar tekjur af sköttum af tekjum landsmanna sem sýnir hvað tekjur landsmanna hækka mikið umfram það sem menn áttu von á og áttu menn þó von á góðri hækkun.

Það sem er neikvætt er að aukning neyslu gefur ríkissjóði 6,4 milljarða. Það er neikvætt því það sýnir að neyslan hefur aukist allverulega, miklu meira en menn áttu von á, og það er ákveðið áhyggjuefni eins og hér hefur komið fram áður.

Í frv. sjálfu er ekki gert ráð fyrir því að breyting verði á tekjuskatti lögaðila en það komu fram upplýsingar í máli hæstv. fjmrh. um að þær breytingar væru óverulegar. Ég reikna með því að hv. efh.- og viðskn. taki á því þegar málið kemur þar inn og finni út breytingar sem nú liggja fyrir vegna upplýsinga úr skattframtölum fyrirtækja.

Herra forseti. Ef maður lítur á gjöldin þá eru það fyrst og fremst lífeyrisskuldbindingarnar sem við verðum vör við. Mér finnst hv. þingmenn oft tala um lífeyrisskuldbindingarnar eins og þær séu einhvers konar froða sem skipti ekki voðalega miklu máli. Þær komi einhvern tíma til greiðslu eða svona kannski, líklega ekki. En ég vil benda á að það er mjög nauðsynlegt að átta sig á því hvað lífeyrisskuldbindingarnar þýða. Þetta eru skuldbindingar sem eru til komnar vegna þess að ríkissjóður hefur lofað opinberum starfsmönnum lífeyri og það er ekki búið að greiða fyrir þann lífeyri. Það er ekki búið að greiða fyrir það loforð. En þetta loforð kemur til greiðslu nokkuð örugglega.

Hve miklu er lofað? Lauslega áætlað má segja svona gróft séð að hver opinber starfsmaður fái aukalega ein mánaðarlaun á ári. --- Herra forseti, það eru aukafundir í gangi.

(Forseti (GÁ): Forseti vill biðja þingmenn að hafa hljótt í þingsal og hlýða á ræðumann.)

Lauslega má segja að lífeyrisskuldbinding opinberra starfsmanna svari til þess að þeir fái aukalega ein mánaðarlaun á ári alla starfsævina til þess að hægt sé að mæta þessum skuldbindingum. Það segir okkur að fólkið er með þetta hærri laun heldur en sést á launaseðli og á skattframtali. Ég get ekki séð og hef ekki séð í launadeilum undanfarinna mánaða að opinberir starfsmenn meti þetta nokkurs. Ég hef hvorki séð það í launakröfum fangavarða, hjúkrunarfræðinga né annarra sem eftir að stéttarfélögin hafa gert kjarasamninga hreinlega segja upp til að þvinga fram viðbótarhækkanir. Menn gera sem sagt lítið úr stéttarfélaginu sínu, gera ekkert úr því, segja að ekkert sé að marka það sem samið hefur verið um og krefjast launahækkana eftir að búið er að semja. Þá er aldrei talað um þessi lífeyrisréttindi, þ.e. hvað þau gefa. En það þyrfti að vera 8--10% viðbótariðgjald á launin sem svarar til einna mánaðarlauna á ári alla starfsævina. Þetta kemur hvergi fram. Þetta er ekki rætt. Þetta er ekki metið. Ég hef mörgum sinnum lagt áherslu á að það ætti að bjóða opinberum starfsmönnum upp á þau skipti að þeir geti valið að hafa venjuleg lífeyrisréttindi eins og 80% þjóðarinnar býr við, þessi almennu lífeyrisréttindi sem grundvallast á 10% iðgjaldi ... (Gripið fram í: Og hækka launin.) og hækka launin sem því nemur, hárrétt hv. þm., bjóða þeim hærri laun sem þess óska. Þá kæmi í ljós hvað þeir hafa raunverulega í laun.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli. Ekki er búið að ganga frá öllum samningum enn þá. Þessar lífeyrisskuldbindingar eiga eftir að hækka enn frekar.

Þetta eru óskaplega stórar tölur. Þetta eru svo stórar tölur að ég efast um að nokkur hv. þm. átti sig á því. Ég átti mig ekki á því. Einhvern tíma lék ég mér að því að reikna út að þetta samsvaraði öllum íbúðum og bílskúrum frá Akranesi norður og vestur um og austur um allt Norðurland og síðan til Austfjarða að Vík í Mýrdal, þ.e. öllum fasteignum einstaklinga, íbúðarhúsnæði og bílskúrum á þessu svæði, sem sagt meginhluta landsins, skuldlaus. Þetta væri sú skuldbinding sem ríkissjóður skuldaði Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þetta er skuld 80% þjóðarinnar við opinbera starfsmenn. Við erum ekki búin að borga velferðarkerfið þannig að ég held að það sé mjög brýnt að taka á þessu.

Á þessa skuldbindingu sem komin er yfir 100 milljarða þarf að reikna vexti, nákvæmlega eins og aðrar skuldir. Inn í þessari skuldbindingu er reiknað með 3,5% vöxtum ofan á lánskjaravísitölu, verðtryggðum vöxtum, þannig að við getum reiknað með því að ríkissjóður þurfi að áætla 4 milljarða á ári næstu árin, áratugi, til þess að greiða vexti á þessa miklu skuldbindingu, fyrir utan það að skuldbindingin sjálf fellur til. Ef ég væri opinber starfsmaður, þá hefði ég af því verulegar áhyggjur að ríkissjóður stæði ekki við þetta.

Svo er gert ráð fyrir því í gjöldunum að launabreytingar opinberra starfsmanna séu 1,9 milljarðar en það er nokkurn veginn sama tala og ríkissjóður fær í skatta vegna launahækkana allrar þjóðarinnar. Það stenst nokkurn veginn á. Sá 2,1 milljarður sem ríkissjóður hefur í auknar skatttekjur vegna launahækkana alls landslýðs svarar nokkurn veginn til þess sem opinberir starfsmenn fá í launahækkun umfram áætlun. Ég hygg að við næstu kjarasamninga almennu verkalýðshreyfingarinnar verði horft til þess mikla launaskriðs sem hefur orðið hjá opinberum starfsmönnum og að það verði ekki auðveldir samningar.

Herra forseti. Á bls. 59 kemur fram að fjármögnun sjóðstreymis ríkissjóð er mínus 14,7 milljarðar. Það þýðir að ríkissjóður greiðir niður 14,7 milljarða meira af lánum heldur en hann tekur. Þetta er eitt gleðilegasta atriðið í þessum fjáraukalögum fyrir árið 1998 að ríkissjóður er að létta þenslunni á ... (Gripið fram í: Sólskinsfrv.) Þetta er nánast sólskinsfrv., hv. þm. Ekki kannski alveg eins og það sem lagt var fyrir 1999, en svona í áttina. Það er mjög ánægjulegt að ríkissjóður ætlar að minnka þrýstinginn á lánamarkaðinn um 14,7 milljarða og öðruvísi mér áður brá. Þetta mun valda því að vextir munu lækka. Þeir hafa þegar lækkað allverulega og hefur lítið verið um það rætt, allt of lítið. Vextir hafa lækkað um 0,96% á lengstu lánunum bara frá áramótum, þ.e. þeir eru núna 3,94%. Þeir eru komnir undir 4% og hefur það ekki sést í áratugi að ríkissjóður geti tekið lán á fjármálamarkaði með 3,94% vöxtum. Þetta stafar að sjálfsögðu af því að lífeyrissjóðirnir eru með 80 milljarða í ráðstöfunarfé á ári, 80 milljarða. Ég bendi hv. þingmönnum á það að lífeyrissjóðirnir hafa núna í ráðstöfunarfé helminginn af ráðstöfunarfé ríkissjóðs. Það sem ríkissjóður notar til að borga heilsugæsluna, menntakerfið, lífeyriskerfið og allt sem ríkissjóður greiðir, er tvöfalt meira en ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Þeir hafa sem sagt 80 milljarða til ráðstöfunar.

Sú mikla vaxtalækkun sem við horfum á mun bæta hag skuldara sem hafa margir hverjir mjög bága stöðu. Hún mun bæta hag unga fólksins sem er að kaupa sér íbúð og hún mun bæta hag fyrirtækja sem eru að taka lán sem gerir það að verkum að hagur fyrirtækjanna blómstrar vegna lægri vaxta og þau geta þar af leiðandi greitt hærri laun sem við að sjálfsögðu berum öll von til að þau muni gera.

Herra forseti. Fjárlög og fjáraukalög gegna verulegu hlutverki í efnahagslífinu. Skynsamleg fjárlög geta lækkað vexti. Þau geta stuðlað að lækkun verðbólgu. Þau geta aukið innlendan sparnað og hafa mikið að segja um það hvernig efnahagslífinu reiðir af, hvernig þjóðfélaginu reiðir af næstu 20--40 árin. Þess vegna er mjög mikilvægt að afgangur sé á fjárlögum og fjáraukalögum. Ég verð að segja að þau fjáraukalög sem við höfum hér fyrir árið 1998 eru mjög jákvæð í því að bæta þessa stöðu svo maður tali ekki um fjárlögin fyrir árið 1999. En því má ekki að gleyma að þetta byggir, eins og hér hefur komið fram, á miklum halla á viðskiptajöfnuði sem eykur erlendar skuldir þjóðfélagsins, þjóðarbúsins, og það er hlutur sem við Íslendingar verðum að fara að taka á.