Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 15:15:18 (786)

1998-11-03 15:15:18# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal komst svo að orði áðan að fjárlögin væru spá. Ég hef nú alltaf litið svo á að fjárlögin væru lög og það ætti að fara eftir þeim og að þetta fyrirbæri sem við köllum frv. til fjáraukalaga ætti að reyna að takmarka sem allra mest því að það er auðvitað mælikvarði á það að ýmist er verið að fara fram úr veittum heimildum til fjárframlaga eða þá að eitthvað óvænt kemur upp sem bregðast þarf við.

Á þessu ári er í fyrsta sinn unnið samkvæmt fjárreiðulögum og sett fram frv. til fjáraukalaga samkvæmt nýjum reglum, þ.e. samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins. Mig langar til þess að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. í upphafi þessarar umræðu hvernig þessi nýju lög hafi reynst, þ.e. lögin um fjárreiður ríkisins. Hafa menn reynt að leggja eitthvert mat á það hvernig þessi lög hafa reynst? Hafa menn rekið sig á einhverja sérstaka galla á lögunum eða horfir þetta allt til framfara? Það væri fróðlegt að fá að heyra álit hæstv. fjmrh. á því.

Ég átti ásamt fjöldamörgum öðrum þingmönnum sæti í nefndinni sem vann frv. Þar ríkti mikil samstaða um þessa breytingu og því væri nú fróðlegt að heyra hvernig mönnum finnst hafa gengið að framfylgja þessum lögum. Mér finnst reyndar að í þessu frv. til fjáraukalaga sé að finna býsna mikið af aukafjárveitingum og kannski meira en maður hefði viljað sjá því að það var rætt töluvert um það í nefndinni að reyna að draga sem allra mest úr þessum aukafjárveitingum.

Mig langar að beina annarri stórri spurningu til hæstv. fjmrh. í tengslum við þetta mál og ýmsar þær fjárveitingar sem hér er farið fram á, þ.e. um mat hans á þeim kjarasamningum opinberra starfsmanna sem hafa verið að koma til framkvæmda eða hafa verið gerðir á þessu ári. Þeir hafa verið þannig að ýmsum hlutum kjarasamninganna var vísað til úrskurðarnefnda og það hefur tekið feikilegan tíma að vinna úr mörgum þessum samningum þannig að í rauninni hefur verið erfitt að átta sig á því um hversu miklar launahækkanir var verið að ræða.

Það kom fram á fundi menntmn. í morgun með fulltrúum menntmrn. að ákveðinn ágreiningur hefur verið á milli fjmrn. og menntmrn. út af kjarasamningum framhaldsskólakennara. Menn hafa í raun og veru tekist á um það hvað ríkið á að greiða og svo virðist vera að sá kjarasamningur hafi falið meira í sér en menn töldu vera í samningnum þegar skrifað var undir hann. Þess sér auðvitað merki víða hér að verið er að leita fjárveitinga vegna hækkana á launum. Og ég spyr: Liggur eitthvert mat fyrir á því um hve miklar launahækkanir var verið að semja almennt að meðaltali? Þetta er eflaust afar mismunandi eftir því hvaða hópar áttu í hlut.

Hæstv. fjmrh. er nýr í starfi og kannski er ekki sanngjarnt að spyrja hann mjög grannt út í einstök atriði. Mig langar þó til þess að fylgja eftir spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Gísla Einarssyni um skattsvik. Eftir því sem ég man best er nokkuð langt síðan farið hefur verið rækilega ofan í eða reynt að meta stöðu skattsvika og ég vildi spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann hug á því að láta gera sérstaka könnun á stöðu skattsvika núna? Ég man að fyrir allnokkrum árum voru skattsvik metin á allt að 11 milljarða kr. og nú er spurningin: Hvaða áhrif hafði það samdráttartímabil sem við gengum í gegnum og hvað gerist þegar samfélagið fer að rétta úr kútnum? Aukast skattsvik eða minnka þau? Hvernig lítur hæstv. fjmrh. á þau mál?

Mig langar líka til að spyrja enn einnar stórrar spurningar. Ég sé í þessu fjáraukalagafrv. og reyndar í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 að gert er ráð fyrir töluverðri lækkun á barnabótum. Það tengist því auðvitað að barnabætur eru tekjutengdar. En mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Stendur til að endurskoða barnabótakerfið? Eru menn sáttir við þá aðferð sem nú er beitt, þ.e. að tekjutengja með þessum hætti eða eru fyrirhugaðar einhverjar breytingar? Ég spyr vegna þess að ef eitthvað er þá finnst mér ástæða til þess að reyna í góðærinu að koma til móts við barnafólk og þann mikla kostnað sem það leggur út í vegna barna sinna. Ég lít þannig á að við eigum börnin öll saman og eigum að verja þau og búa eins vel að þeim og við getum. Við vitum að þótt aðstæður barnafjölskyldna séu afskaplega mismunandi þá fylgir þeim mikill kostnaður og ef samfélagið á einhvers staðar að koma til móts við fólk þá ætti það að vera til þess að auðvelda börnunum lífið og vernda þau, þó að deila megi um hvaða aðferðum eigi að beita.

Enn ein stór spurning lýtur að lausn á vanda stóru sjúkrahúsanna. Hér hefur aðeins verið minnst á þau í umræðunni og við sjáum í grg. þessa frv. að enn ein nefndin er að störfum til að skoða vanda stóru sjúkrahúsanna. Ég hef nú ekki tölu á því hvað nefndirnar eru orðnar margar sem sest hafa yfir þetta ár eftir ár og alltaf er sami leikurinn endurtekinn. Það skortir stórlega á fé til stóru sjúkrahúsanna. Það liggur algjörlega fyrir þegar fjárlög eru samþykkt að 200--400 milljónir vantar upp á í rekstrinum. Sjúkrahúsunum er gert að reyna að spara og hagræða og allt stjórnkerfi sjúkrahúsanna situr yfir því með sveittan skallann að reyna að finna leiðir til þess en það hefur lítið gengið. Maður spyr auðvitað: Hvenær kemur að því að menn horfast í augu við þennan vanda eða reyna að finna lausnir sem duga? Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvar þau mál séu stödd og hvernig hann sem nýr ráðherra í embætti hyggist beita sér fyrir lausn á vanda stóru sjúkrahúsanna.

Þá langar mig til þess að víkja að örfáum atriðum sem fram koma í sjálfu frv. Margt vekur athygli og spurningar um það þar sem kostnaður hefur verið vanmetinn og kannski er ekki ástæða til þess að vera að fara rækilega ofan í það, eins og heimssýninguna í Lissabon eða Stjórnarráðshúsið. Það er auðvelt að skilja að slíkir liðir geti farið fram úr áætlun og það koma svo sem fram skýringar á því. En mig langaði að spyrja hæstv. fjmrh. frekar og kannski tíunda það enn að ég veit ekki hversu sanngjarnt er að spyrja hann út í einstök smáatriði sem heyra undir einstök ráðuneyti. En hann vísar því þá bara frá sér. Mig langaði að spyrja um Byggðastofnun. Hér er verið að leggja 45 millj. kr. til Byggðastofnunar. Getur hæstv. fjmrh. upplýst hvað flutningur hluta Byggðastofnunar norður í land kostaði? Hér kemur ekkert fram um það. Sjálfsagt er það að finna í reikningum. En ég minnist þess að í umræðunum um fjárreiður ríkisins vék ég að því að gott væri og í rauninni nauðsynlegt að fjárlagafrv. fylgdi yfirlit um ýmsar framkvæmdir eða nýtingu á heimildum ríkissjóðs. Mér finnst oft að hægt væri að auðvelda okkur að hafa yfirsýn yfir fjármál ríkisins ef menn birtu yfirlit yfir það hvað verið er að gera.

Hvað varðar menntmrn. þá tengist það reyndar spurningunni sem ég bar fram áðan um kjarasamninga við opinbera starfsmenn. Ég hef eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heyrt að framhaldsskólarnir séu víða í vanda vegna kjarasamninganna, að þeir hafi farið fram úr áætlunum. Og ég spyr: Hvernig á að leysa þann vanda? Er kannski búið að því eða er því vísað til næsta árs? Það er a.m.k. ljóst að í fjárlögum fyrir árið 1999 er töluverða hækkun að finna vegna kjarasamninganna.

Ég vil fagna því sérstaklega að Vesturfarasetrið á Hofsósi fær fjárveitingu. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda ef það skemmtilega framtak og merkilega hefði orðið að engu vegna fjárskorts og ég vona svo sannarlega að menn finni stuðningi við það merkilega menningarsetur farveg. Það kom fram í fréttum að allt að 20 þúsund manns hafa heimsótt Vesturfarasetrið og það er náttúrlega alveg ljóst að það hefur alveg gjörbreytt aðstöðu fólks í þessum litla bæ.

Ég ætla ekki að fjalla um sendiráðin. Það var gerð mikil skýrsla um framtíð utanríkisþjónustunnar og ef ég man rétt sat hæstv. núv. fjmrh. í þeirri nefnd. Það þarf auðvitað að skoða þessi mál í tengslum við þá forgangsröð sem menn ákveða. En varðandi sendiráðin er náttúrlega bæði verið að kaupa og selja og ýmislegt að gerast í þeim málum.

Mig langar að spyrja um landbrn. Þar kemur fram varðandi liðinn 04-811 Bændasamtök Íslands. Þar er 170 millj. kr. fjárveiting til jarðræktarframlaga. Í skýringum við þetta segir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar eru 170 millj. kr. til að mæta kostnaði ríkisins af samningum við bændur vegna framkvæmda á lögbýlum sem teknar voru út og samþykktar af héraðsráðunautum á árunum 1992--1997. Heildarkostnaður við fullnaðaruppgjör á þessum framkvæmdum er 220 millj. kr., en það er í samræmi við heimild í búnaðarlögum sem samþykkt voru á síðasta löggjafarþingi. Í fjárlögum 1998 er veitt 50 millj. kr. framlag vegna uppgjörsins.``

Hér hefur sem sagt vantað 170 milljónir vegna þessa uppgjörs. Nú er sá sem situr í sæti forseta kannski manna líklegastur til að geta upplýst hvað hér er á ferðinni en ég verð bara að viðurkenna það að ég átta mig alls ekki á því hvað hér er á ferð. Er þetta hluti af búvörusamningnum eða samningum við sauðfjárbændur og kúabændur? Hvers konar framkvæmdir á lögbýlum eru hér eiginlega á ferðinni sem kosta þetta miklar upphæðir?

Þá ætla ég aðeins að víkja að félmrn. og fagna því að hér er að finna fjárveitingu til aðgerða til að auka hlut kvenna í stjórnmálum í samræmi við það sem samþykkt var í þáltill. í vor, en jafnframt að vekja athygli á því og biðja fjárlaganefndarmenn að athuga það sérstaklega að í fjárlagafrv. fyrir árið 1999 er aðeins áætluð 2,1 millj. kr. til þessa verkefnis. Það er allt of lítið, ekki síst á kosningaári. Úr þessu þarf að bæta snarlega. Þarna er mjög mikilvægt verkefni og auðvitað eiga fjárveitingarnar að vera samkvæmt og í samræmi við samþykkt Alþingis.

[15:30]

Það er eitt og annað sem væri vert að nefna. Ekki er að finna neinar úrbætur varðandi málefni fatlaðra í Reykjavík eða á Reykjanesi en athygli okkar ýmissa þingmanna hefur verið vakin á því að í þessum tveimur kjördæmum er mikið ófremdarástand og langir biðlistar vegna fatlaðra. Við svo búið má ekki standa og við þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness þurfum sannarlega að standa okkur betur hvað þá málaflokka varðar. Í fjárlögunum fyrir árið 1999 er að vísu aðeins um hækkun að ræða en hún ræðst m.a. af því að á höfuðborgarsvæðinu er verið að yfirtaka heimili einhverfra en sá rekstur heldur auðvitað áfram, en það vantar sárlega fé til þess að stytta biðlistana. Ég vil hvetja þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness til að snúa sér sérstaklega að þessum málaflokki á næstu vikum og reyna að vinna að úrbótum því að það er staðreynd að þessi mál eru sem betur fer í miklu betra horfi úti á landi en hér á þéttbýlustu svæðunum.

Það er eins og fyrri daginn að illa gengur að áætla meðlögin og þarf stöðugt að færa til milli félmrn. og jöfnunarsjóðsins eða sveitarfélaganna og er nú kominn tími til að stjórnvöld taki sig saman og fari í samstarf við fræðslusamtökin um kynlíf og barneignir og reyni að draga eitthvað úr ótímabærum barneignum og því sérkennilega fyrirbæri sem eru allar þessar meðlagsgreiðslur hér á landi.

Ég var búin að nefna stóru sjúkrahúsin og ætla ekki að tíunda meira um þau. Það eru sömu vandræðin þarna ár eftir ár. Ég var búin að nefna fjmrn. og er því í raun búin að koma inn á þá spurningu um kjarasamningana og ég ætla ekki að fjalla neitt um lífeyrissjóðina. Þetta eru þær skuldbindingar sem við stöndum frammi fyrir samkvæmt lögum og samningum. Varðandi ummæli hv. þm. Péturs Blöndals um lífeyrisgreiðslu til opinberra starfsmanna og þau mál yfir höfuð, þá man ég ekki betur en launum opinberra starfsmanna hafi verið haldið niðri um áratuga skeið á grundvelli þess að þeir hefðu svo góð lífeyrisréttindi. En það er spurning hvort menn vilja snúa þessu við og borga hærri laun og draga úr lífeyrisgreiðslunum en það kemur bara niður á samfélaginu með öðrum hætti þó síðar verði. Ég held því að það komi nokkuð í sama stað niður.

Þá vekur athygli, hæstv. forseti, aukafjárveiting hjá iðnrn. varðandi iðnaðarrannsóknir og stóriðju og er aldeilis með eindæmum hversu miklu fjármagni er varið til þess að reyna að laða að mengandi erlenda stóriðju meðan menn því miður skoða allt of lítið aðra kosti sem okkur standa til boða í atvinnumálum.

Þá vil ég að lokum vekja athygli á þeim kostnaði sem umhvrn. þarf að bera vegna flutnings Landmælinga Íslands til Akraness, 13 millj. kr. samkvæmt þessu frv., en ég hygg að ekki séu öll kurl komin til grafar í því máli. Þar eru enn þá málaferli í gangi og því miður hefur það mál allt saman verið afar erfitt og að mínum dómi kennir þetta okkur að það er ekki rétta aðferðin til þess að auka störf á landsbyggðinni að taka svona heilu stofnanirnar gegn vilja starfsfólks. Það getur ekki verið tilgangurinn að hálflama einstakar stofnanir. Þar verður ákveðin sátt að ríkja.

Hæstv. forseti. Þetta frv. ber það með sér að gerðar hafa verið miklar breytingar á framsetningu fjárlaga og frv. til fjáraukalaga og þau spegla stöðuna miklu betur en áður. Hér má greinilega sjá að ríkissjóður nýtur góðs af blómlegu atvinnulífi en ber jafnframt mikil útgjöld og það er auðvitað eitt af hinum stóru verkefnum sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir, hvernig við ætlum að fjármagna okkar velferðarkerfi í framtíðinni og hvernig því skuli háttað. Það eru því stór og spennandi verkefni fram undan á þeim sviðum.