Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 15:35:48 (787)

1998-11-03 15:35:48# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef í huga að segja nokkur orð um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998 sem hér liggur fyrir en ég mun ekki fara í frv. í smáatriðum því að til þess gefst tækifæri í fjárln. þar sem ég á sæti og svo aftur við 2. umr. Ég ætla að stikla á stóru á þeim atriðum sem mér finnst vera mikilvægust í frv. og þar með ríkisfjármálunum um þessar mundir.

Frv. ber auðvitað með sér eins og fjárlagafrv. sjálft að góðæri er í landinu. Það eru ýmsir sem vilja þakka sér sérstaklega þetta góðæri en ég held að aðallega séu það utanaðkomandi ástæður sem orsaka þetta. Það verður ekki fram hjá því gengið að tekjur ríkisins eru 9 milljörðum umfram það sem áætlað var við lokaafgreiðslu síðustu fjárlaga. Ýmsum fannst, þar á meðal okkur í stjórnarandstöðunni, það nokkuð varlega áætlað enda hefur það komið í ljós.

Þrátt fyrir þessa miklu tekjuaukningu hefur stöðugleiki haldist í efnahagslífinu. Það er náttúrlega við fyrstu sýn nokkurt undrunarefni en orsök þess er fyrst og fremst mjög hátt verðlag á íslenskum sjávarafurðum erlendis. Þar hefur verðhækkun orðið upp á 20% að meðaltali á árinu en einnig lækkun olíuverðs. Olíuverð mun nú vera í sögulegu lágmarki, það lægsta sem hefur sést um 12 ára skeið.

Svo kemur ranghverfan á þessari stöðu, þessum 9 milljörðum, þ.e. að þeir eru að miklu leyti til komnir vegna gríðarlegrar aukningar á einkaneyslu, en talið er að einkaneysla hafi aukist úr 5% sem áætlað var í um 10%. Þetta hefur haft í för með sér mikla skuldasöfnun erlendis sem var þó ærin fyrir því að nú þegar borgum við 20 milljarða á ári í vexti af erlendum skuldum og væri gaman að hafa eitthvað af þeim peningum til að nota til þarfra verkefna hér innan lands.

Það allra versta kannski í þessari stöðu er að skuldaaukning heimilanna hefur á árinu orðið gríðarleg. Nú hefur það verið margtíundað hér að miklar hækkanir hafi orðið á launum, a.m.k. á launum einhverra, en skuldir heimilanna hafa vaxið gríðarlega. Þær voru um mitt árið í ár um 407 milljarðar kr. og höfðu vaxið um tæpa 50 milljarða frá sama tíma árinu áður og hefði minna nægt til að auka manni áhyggjur af þessari stöðu. Þetta er þvílíkur gríðarlegur dreki, þessi skuldastaða heimilanna, að svo virðist sem tvö eða þrjú höfuð vaxi í staðinn fyrir hið eina sem höggvið var af, og satt að segja er þetta kannski eitt af því sem liggur þyngst á manni varðandi íslenskt efnahagslíf.

Einnig má nefna skuldastöðu sveitarfélaga en hún er mikið áhyggjuefni. Að vísu standa sveitarfélögin misjafnlega. Veigamikil verkefni hafa verið færð yfir á sveitarfélögin en nægilegir fjármunir hafa ekki fylgt með að mínum dómi, t.d. þegar grunnskólinn var færður. Sveitarfélögin hafa mikinn metnað að vinna vel að þessu verkefni en mikið vantar á í flestum tilvikum að nægilegt fjármagn hafi fylgt með við yfirfærslu grunnskólans. Þessi slæma skuldastaða metnaðarfullra sveitarfélaga hefur því síst batnað af þessum orsökum. Mér finnst því mjög brýnt að renna fleiri stoðum undir fjármögnun verkefna sveitarfélaga. Það hafa verið nefndar leiðir eins og að auka hlutdeild þeirra í ýmsum sköttum eða t.d. í tryggingagjaldi. Það má auðvitað margt fleira láta sér detta í hug en ég held að mjög sé brýnt að taka á þessu máli. Við getum ekki látið þessi sveitarfélög hringinn í kringum landið hanga á horriminni með þeim hætti sem við gerum í dag. Ég heimsótti eitt sveitarfélag í vor á vesturhluta landsins þar sem staðan er mjög slæm og ég verð að segja að ég skil ekki að ekki skuli vera gert sérstakt átak til að breyta stöðu sveitarfélaga sem standa í slíkum sporum vegna þess að við ætlumst til að þau sinni mjög mikilvægum verkefnum.

Mér finnst að ekki sé brugðist nægilega við þeim þenslueinkennum sem eru í þjóðfélaginu í fjáraukalögunum og þeim fjárlögum sem nú liggja fyrir. Mér finnst ekki nóg af sparnaðarhvetjandi kostum í boði. Ég vil t.d. minna á að ég hef tekið það nokkrum sinnum upp á Alþingi að þegar verið er að greiða út stórar fjárhæðir í vaxtabætur á hverju ári, þá ætti að vera val um sparnaðarhvetjandi kosti þannig að ef fólk óskaði að binda þetta fé á reikningi til einhverra ára ætti það kost á einhverjum ákveðnum hluta af því í skattafrádrátt. Fleiri slíkar aðgerðir má hugsa sér en ég held að við þurfum að gera eitthvað sem er virkilega áhugavert fyrir fólkið í landinu til að hvetja til aukins sparnaðar.

Það er líka annað sem er að skella á núna í góðærinu og mér finnst vera umhugsunarefni. Það eru þessar skattalækkanir. Það er nefnilega svo að góðærið hefur ekki komið til allra eins og hefur nokkrum sinnum verið rætt hér því að um 50% þjóðarinnar telja sig ekki hafa orðið vör við góðærið. Þar að auki getum við bent á ákveðin 10--20% sem við vitum að hafa farið mjög illa út úr þessu góðæri. Um það bera t.d. skýrslur hjálparstofnana vitni þar sem ákveðinn hluti þjóðarinnar heitir á hurðir félagsmálastofnana og hjálparstofnana af ýmsu tagi í hverjum mánuði til að eiga fyrir mat og brýnustu nauðþurftum út mánuðinn. En ég verð að segja að ég met það fram yfir skattalækkanir, prósentulækkanir yfir heilu línuna, að gripið verði til einhverra aðgerða þannig að fólk þurfi ekki að búa við slíkan kost á Íslandi um þessar mundir.

Ég vil einnig minnast á sérstakar aðgerðir til að lækka tekjuskatt á fyrirtækjum sem eiga að koma til fullgildingar um áramótin. Það er engin sérstök ástæða til að lækka tekjuskatt á fyrirtækjum sem þó borga tekjuskatt í þjóðfélaginu í dag. Það eru ótal leiðir hjá fyrirtækjum til frádráttar sem einstaklingar hafa ekki. Ég hefði frekar kosið að skattar yrðu hækkaðir á fyrirtæki í stað þeirrar lækkunar sem gerð var á mögru árunum fyrir nokkru síðan og þeir peningar yrðu notaðir til að borga þeim sérstakar bætur sem standa höllum fæti.

[15:45]

Nú vil ég sérstaklega minnast á það sem hefur áður komið fram í umræðunni dag. Í þessum fjáraukalögum eru menn að hrósa sér af því að barnabætur lækki. Nú liggur fyrir af þeim skýrslum sem hafa verið skrifaðar nýlega um fátækt í landinu að ákveðinn hópur barnafólks, tekjulágt fólk með mörg börn, hefur ekki fyrir nauðþurftum og þarf að leita til félagsmálastofnana og hjálparstofnana. Ég bendi á að barnabætur hér á landi eru langt fyrir neðan það sem þekkist í nálægum löndum og eitt af því sem er mikilvægt að við gerum þegar batnar í ári er að bæta stöðu barnafólks. Gera sérstakar sértækar aðgerðir til að bæta stöðu barnafólks. En engin áform eru um það hvorki í þessum fjáraukalögum né þeim fjárlögum sem nú eru til afgreiðslu. Ég vildi að það yrði tekið til frekari athugunar milli umræðna.

Eitt atriði vil ég minnast á. Tekið var upp mikið patent sem átti að heita ,,viðmiðunarkjarasamningar`` þar sem átti að vera hægt að gera samninga innan stofnananna. Það voru mörg orð höfð um að þetta ætti ekki að leiða til kostnaðarauka heldur ætti að verða sparnaður og hagræðing innan fyrirtækjanna eins og hv. þm. Pétur Blöndal minnti á áðan og er alveg hárrétt hjá honum, til að mæta þessum viðmiðunarkjarasamningum.

Þessa dagana koma forstöðumenn þessara stofnana í röðum fyrir fjárln. þingsins því það hefur gerst að þeir urðu að gera viðmiðunarkjarasamninga sem leiddu til verulegs kostnaðarauka fyrir stofnanirnar, ekki síst vegna þess að aðrar stofnanir sem höfðu starfsmenn með hliðstæða menntun voru búnar að gera slíkan viðmiðunarsamning á undan og þess vegna varð ekki undan því vikist að mati forstöðumanna þessara stofnana að gera sams konar eða hliðstæða samninga. Það virðist ekki hafa verið unnt að spara við listana, eins og áformað var, svo að þetta hefur leitt til verulegs halla hjá fjölda stofnana.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig hafi staðið á því að viðmiðunarkjarasamningarnir, sem áttu að fara fram innan þeirra fjárlaga sem stofnanirnar höfðu, fóru þannig úr böndunum. Var þetta gert alveg án nokkurs samráðs við fjmrn.? Ég ætla ekki að gera einstakar fjárveitingar og einstaka liði í þessu frv. sem hér liggur fyrir að umræðuefni eins og ég sagði áðan, ég ætla að bíða 2. umr.