Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:08:53 (791)

1998-11-03 16:08:53# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég átti eftir að svara nokkrum atriðum frá því áðan og þá einkum spurningum frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um einstaka liði í frv. Hvað varðar stóru sjúkrahúsin er gert ráð fyrir verulegum aukafjárveitingum til þeirra í frv. Fyrir utan þær upphæðir sem ráðgerðar voru í tengslum við skiptingu fjármagns af óskiptum lið, svokölluðum potti, en af þeim fóru 266 millj. til sjúkrahúsanna í Reykjavík, þá er lagt til að Sjúkrahús Reykjavíkur fái 273 millj. og Ríkisspítalarnir 186 til viðbótar. Mér finnst ólíklegt annað en að með þessu fjármagni verði hægt að gera þessa spítala upp, a.m.k. til síðustu áramóta. Vandinn á þessu ári er enn óleystur og á vegum heilbrrn. er sérstakur faghópur að vinna að þessu máli.

Í þessu efni er hins vegar mörgum spurningum ósvarað og vissulega hefur þessi gríðarlega umfangsmikli rekstur verið áhyggjuefni á undanförnum árum, hvernig hægt sé að halda utan um þetta og jafnframt taka tillit til nýjunga og framfara í læknisfræði og lyfjaþróun sem menn vilja auðvitað að komi inn í þetta kerfi. Hins vegar hefur tilhneigingin til útgjaldaþenslu verið mjög mikil og þess vegna hafa þessi vandamál verið árum saman eins og margir hafa gert að umtalsefni.

Ég vil segja að bæði hvað varðar sjúkrahúsin í Reykjavík og fjölmargra aðra liði í heilbrigðismálunum hefur verið gert heilmikið átak. Hér er t.d. verið að leysa vandamál ýmissa heilsugæslustöðva úti á landi. Í ákveðnum lið er gert ráð fyrir því að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla á heilsugæslusviðum þessara stofna. Það er líka gert ráð fyrir að gera upp ýmis gömul ágreiningsmál, t.d. varðandi gæsluvaktir á þessum stofnunum. Hér eru aukafjárveitingar, t.d. í liðinn Sjúkrahús og læknisbústaðir sem eru líka gömul uppgjörsmál, gamall leiðindaágreiningur sem á að koma út úr heiminum og nota tækifærið við þessar aðstæður sem eru í ríkisbúskapnum til þess að leysa ótal slík mál, ekki aðeins í heilbrigðismálum heldur víðar. Þarna er sem sagt um að ræða uppgjör á eldri framkvæmdum og fleira þess háttar sem of langt mál yrði að taka hér upp.

Hér er líka komið til móts við starfsemi sem er í gangi. Hér er framlag í nýbyggingu Samtaka áhugamanna um áfengisvandamálið, 15 millj. í nýbyggingu á Vogi. Hér er framlag upp á sömu upphæð, 15 millj., vegna framkvæmda hjá Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði. Síðan fá tóbaksvarnir óvænt 3,5 millj. kr. aukaframlag vegna þess að lögin um tóbaksvarnir gera ráð fyrir ákveðnu hlutfalli af brúttóheildarsölu af tóbaki. Við stöndum náttúrlega við það hér og ég held að hægt sé að gera eitthvað gott fyrir þá peninga. Þannig mætti lengi telja. Víða er verið að leysa gömul mál sem sum hafa verið ansi fyrirferðarmikil og okkur öllum til trafala og mörgum sem hlut eiga að máli til leiðinda.

Hv. þm. spurði um 45 millj. kr. til Byggðastofnunar. Þar er um að ræða eitt af þeim málum þar sem verið er að reyna að greiða upp gamlan skuldahala. Þetta stafar af því að þarna er talað um að gera upp fyrirheit sem lúta að sauðfjárbændum á svæðum sem ekki hafa notið góðs af stóriðjuframkvæmdum. Þetta er mál frá 1991 eða frá upphafi þessa áratugar sem ekki hefur verið hægt að ljúka við.

Að því er varðar Bændasamtökin er þar hins vegar um að ræða uppgjör á jarðræktarframlögum sem var endanlega samþykkt í þinginu í vor. Þarna eru 170 millj. lagðar til hliðar en samkvæmt nýju lögunum um fjárreiður ríkisins ber að gjaldfæra allt þetta núna þó það komi ekki til greiðslu fyrr en síðar vegna þess að þetta er skuldbinding.

Að því er varðar félmrn. og ályktun um að auka hlut kvenna, þá stendur í henni að framlög eftir þetta ár eigi að vera samkvæmt ákvörðun Alþingis. Tillaga ríkisstjórnarinnar er sem sagt 2,1 millj. sem er í samræmi við tillöguna.

Ég hef ekki rýmri tíma hér, herra forseti, enda tel ég að ég hafi svarað öllum spurningum sem fram komu og þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál. Ég treysti því að fjárln., undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánsson sem tjáði sig um frv., vinni gott verk og þarft í þessu máli í samstarfi við ríkisstjórnina.