Breytingar á ýmsum skattalögum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:31:24 (796)

1998-11-03 16:31:24# 123. lþ. 18.10 fundur 150. mál: #A breytingar á ýmsum skattalögum# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er lagt til að breyta ýmsum ákvæðum ýmissa skattalaga og fer vel á því að allar þessar breytingar eru færðar í einn bálk þannig að við þurfum ekki að taka á mörgum lagafrumvörpum.

Í 1. gr. er bara verið að beita heilbrigðri skynsemi sem hefur einhvers staðar tapast og gera það að verkum að laun sem dæmd eru samkvæmt dómi lúti sömu reglum og önnur laun. Maður hefði talið að það væri bara heilbrigð skynsemi en það virðist ekki hafa verið, hún hefur einhvers staðar týnst.

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til þess að ræða um 2. gr. Hún lætur lítið yfir sér. Í stað ártalsins 1999 komi árið 2004, þetta merkir að þjóðarbókhlöðuskatturinn sem er 0,25% af öllum eignum umfram ákveðið mark, skuli framlengjast í fimm ár í viðbót. Það á sem sagt að viðhalda áfram skatti upp á 1,45% af eignum sem er með hæstu sköttum á eignir í öllum OECD-löndum nema e.t.v. Noregi. Þessi skattlagning er mjög skaðleg fyrir sparnað. Á þennan hátt hirðir ríkið þær eignir af borgurunum sem eru yfir ákveðnum mörkum á 70 ára fresti. Þetta veldur mikilli eignasamþjöppun ríkisins og er í reynd ríkisvæðing og andstætt hugsjónum þess flokks sem ég er í, Sjálfstfl.

Hæstv. fjmrh. gat þess að þetta hefði gert það kleift að halda við menningarverðmætum af myndarskap og efa ég það ekki en mér þykir mjög óeðlilegt að eingöngu þeir borgarar landsins sem eiga eignir umfram ákveðið mark og nenna að greiða eignarskatt, ég kem inn á það á eftir, standi að þessu viðhaldi á menningararfleifð þjóðarinnar og meginhluti þjóðarinnar horfi á aðgerðalaus og heimti jafnvel enn meiri skatta á þessar eignir.

Herra forseti. Greiðendur þessa gjalds, eignarskattsins, er margt hvert eldra fólk í stórum illseljanlegum eignum, íbúðum sem gefa engan arð. Þetta fólk er yfirleitt ekki með mikil fjárráð og það á í miklu basli og vandræðum með að borga af eignunum. Það getur ekki selt eignirnar á viðunandi verði og á líka kannski erfitt með að skilja við þær eignir sem það hefur búið í alla ævi.

Við búum við skuldaraþjóðfélag og hefur lengi verið við lýði. Það er verið að dekra við skuldarann en það er verið að hegna þeim sem spara og stunda ráðdeildarsemi. Það er verið að verðlauna þann sem eyðir og sólundar. Vaxtabæturnar eru alveg sérstakt dæmi um að verið er að verðlauna þá sem skulda og hvetja þá til að skulda enn frekar. Ég hef margoft bent hv. þm. á að það er engin furða að skuldir heimilanna vaxa sífellt þar sem ákveðinn hvati er í skattkerfinu. Fólki er sagt: Skuldaðu, vinurinn, skuldaðu meira. Ríkissjóður greiðir vextina í formi vaxtabóta. Síðan taka menn til við krampakenndar aðgerðir við að galdra og pína fram sparnað sem vill ekki koma fram vegna þess að honum er hegnt á öðrum sviðum. Þar er akkúrat eignarskatturinn sem refsar mönnum fyrir það að hafa lagt til hliðar og stundað ráðdeildarsemi og myndað eignir. Nei, ríkissjóður tekur þær eignir af fólki á 70 ára fresti. Það er mjög brýnt, herra forseti, að laga þessi atriði, lækka eignarskattinn á fólk og laga vaxtabæturnar og kalla þær húsnæðisbætur en ekki bætur til þeirra sem skulda.

Herra forseti. Ég lofaði því áðan að útskýra hverjir nenna að greiða eignarskatta. Það er nefnilega þannig að þeir greiða eignarskatta sem nenna því. Það er svo auðvelt að komast hjá því að greiða eignarskatta algerlega löglega og ég hef svo sem áður bent á það úr þessum ræðustól. Menn kaupi spariskírteini og taka til þess lán með veði í spariskírteinunum. Með svo gott veð fá menn lægstu kjör hjá bönkunum, jafnvel niður í 7,5% vexti vegna þess að það er veð í spariskírteinum. Þá fellur þetta ekki undir CAD-reglur bankanna. Þetta kemur ekki inn í þær reglur bankanna sem takmarka útlánagetu þeirra þannig að þeir taka svona skuldurum fagnandi. Ég skil eiginlega ekki í bönkunum að hafa ekki auglýst þetta. Bara auglýsing: Hver nennir að greiða eignarskatt? Eða: Nennir þú að greiða eignarskatt? Ef þú nennir ekki að geriða eignarskatt, komdu þá til mín og ég skal lækka eignarskattinn eins og þér sýnist. Þetta er nefnilega algerlega löglegt og ég hef margoft bent á það að þetta skattfrelsi spariskírteinanna er ákaflega óeðlilegt.

Eins og oft áður þegar menn búa til svona vitlaus skattalög sem eru reyndar búin að vera í gildi mjög lengi, það var ekki þessi ríkisstjórn og ekki sú síðasta sem tók þetta upp heldur einhver hæstv. fjmrh. lengst aftur í fortíðinni, með svona gölluðum reglum, leiða þær til þess að þeir sem hafa þekkinguna og góða endurskoðendur borga ekki skattinn. Hinir, smælingjarnir, sem eiga kannski eina íbúð, jafnvel kjallaraholu og borga eignarskatt 1,45%, borga skattinn. Þetta er nú allt réttlætið. Mér finnst mjög brýnt, herra forseti, að hæstv. fjmrh. taki sig á og lagi þetta misræmi, lækki eignarskatta og taki af eignarskattsfrelsi spariskírteina, að sjálfsögðu í áföngum. Það verður að gera í áföngum.

Herra forseti. Í 3. og 4. gr. eru alls konar gjöld, t.d. leyfi til rekstrar fjarskiptaþjónustu, 80 þús. kr. Hversu margir skyldu óska eftir leyfi til reksturs fjarskiptaþjónustu? Hvað ætli þetta gefi miklar tekjur? Síðan er leyfi til rekstrar póstþjónustu, 80 þús. kr. sömuleiðis. Hversu margir skyldu óska eftir leyfi til rekstrar póstþjónustu? Ég segi: Sárafáir. Leyfi til rekstrar lífeyrissjóðs. Það eru gjöld upp á 50 þús. kr., 30 þús. kr. og 10 þús. kr., þ.e. 50 þús. kr. fyrir nýjan lífeyrissjóð, 30 þús. kr. fyrir starfandi lífeyrissjóð og 10 þús. kr. fyrir lífeyrissjóð sem hættur er að taka við iðgjöldum. Í landinu starfa 60 lífeyrissjóðir. Ég hygg að þetta muni gefa ríkissjóði allt saman einhverjar örfáar milljónir.

Herra forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir og hef alvarlegar athugasemdir við umsögn fjmrn. um kostnað við þessar breytingar. Það er ekki spurning að það að framlengja þjóðarbókhlöðuskattinn og ég vildi óska eftir að hæstv. fjmrh. hlustaði á mál mitt í þessu þar sem ég er að gagnrýna fjmrn. Það er ekki spurning að innheimta þjóðarbókhlöðuskattsins kostar ríkissjóð heilmikið. Það þarf að muna eftir þessum skatti, það þarf að forrita. Fólk þarf að standa í þessari innheimtu og þessi skattur gefur 550 millj. Það hlýtur að kosta heilmikið að innheimta hann fyrir þá sem taka að sér innheimtuna og það er ekki talað um að þetta valdi kostnaðarauka í umsögn fjmrn. Það er eins og rekstur alls skattkerfisins kosti ekki neitt. Ég hef miklar og alvarlegar athugasemdir við það.

Það kostar líka heilmikið að innheimta þennan skatt af lífeyrissjóðunum, þessar 3 millj. sem það gefur eða 2 millj. eða eitthvað slíkt. Allur þessi skattur lífeyrissjóðanna gefur ríkissjóði 2 millj. og það kostar heilmikið að halda utan um það og muna eftir öllum þessum sköttum, öllum þessum tilbrigðum, 50 þús., 30 þús. og 10 þús. Allt kostar þetta. Þetta er ekki kostnaður sem gefur þjóðhagslegar tekjur því að verið er að taka af einum þegninum til þess að láta annan hafa. Þetta gefur ekki nokkrar einustu tekjur, skilar engu í þjóðarbúið. Ég mundi leggja til að það yrði hreinlega sett núll á alla liði 3. gr., bara strikað út vegna þess að kostnaður við innheimtuna er meiri en það sem innheimt er eða a.m.k. það stór hluti af því að það er ekki skynsamlegt að fara út í svoleiðis hluti. Mér finnst persónulega að kostnaður við skattheimtu megi ekki fara mikið yfir 5% vegna þess að skattheimta gefur þjóðarbúinu ekki neitt.

Ég vil að fjmrn. endurskoði umsögn sína við þetta frv. um kostnaðinn sem það veldur að framlengja þjóðarbókhlöðuskattinn og taka upp öll þessi smágjöld á þessa aðila og mér finnst að það eigi hreinlega að sleppa sköttum sem eru svona smávægilegir og svona sjaldgæfir.