Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:54:20 (800)

1998-11-03 16:54:20# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. eru þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að mestu tilkomnar vegna nauðsynjar þess að laga þessi lög að öðrum lögum, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Flest það sem lagt er til í frv. er til bóta, þótt að sjálfsögðu þurfi þetta frv. að sæta rækilegri skoðun í meðferð þingsins sem mun væntanlega leita umsagnar allra þeirra aðila sem hlut eiga að máli.

Á þessu stigi vil ég þó gera athugasemd við eina grein frv., 3. gr., um skipan í stjórn sjóðsins, en eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. er gert ráð fyrir því að fjmrh. skipi sjö menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu tveir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Sambands almennra lífeyrissjóða, tveir eftir tilnefningu stjórnar Landssambands lífeyrissjóða og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður sjóðstjórnar, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

Eins og fram kemur í grg. og reyndar einnig í framsöguræðu hæstv. fjmrh. er sú breyting gerð frá fyrri lögum að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem áður tilnefndi einn fulltrúa í stjórn, mun ekki tilnefna í stjórn Söfnunarsjóðsins nái þetta frv. fram að ganga.

Ég er ekki með tölur yfir félaga eða þá sem aðild eiga að Söfnunarsjóðnum en ég hygg að stór hluti þeirra komi úr röðum opinberra starfsmanna eða hafi gert til þessa. Það er rétt sem hæstv. fjmrh. bendir á að breytingar hafa orðið á aðgengi að LSR, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, með nýjum lögum um þann sjóð. Eftir sem áður er stór hluti þeirra sem aðild eiga að Söfnunarsjóðnum úr þessum ranni og verður væntanlega enn um hríð. Benda má á að ýmsir þeir sem starfa við stofnanir sem hafa verið einkavæddar eiga aðild að þessum sjóði og margar stofnanir á vegum hins opinbera eru aðilar að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Að mínum dómi er þetta því óeðlileg breyting. Ég hefði talið hyggilegra að bíða með breytingu af þessu tagi þar til síðar, að eðlilegt væri að skoða málin í ljósi reynslunnar. Því legg ég til að þetta mál verði skoðað auk þess sem hér er ákveðið stílbrot á ferðinni. Reynt hefur verið að gæta þess að jafnræði sé með atvinnurekendum og launamönnum um skipan í stjórnir lífeyrissjóðanna en hér er sú hefð brotin ef þetta nær fram að ganga. Ég vil því hvetja til þess að þessi lagagrein verði endurskoðuð en að sjálfsögðu áskil ég mér rétt til að taka til nánari skoðunar aðrar greinar frv., sem ég tel þó að séu flestar til mikilla bóta.

Hér hefur farið fram athyglisverð umræða um ýmislegt sem tengist fjmrn. og stjórn fjármála ríkisins. Menn hafa ekki hikað við að gefa sér góðar einkunnir fyrir frammistöðu á undangengnum árum og kallað til vitnis menn utan úr heimi. Í umræðu um fjárreiður ríkisins var vitnað til Alþjóðabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ég man ekki hvort hæstv. fjmrh. gerði. Hann sagði að þar væru menn afskaplega hrifnir af því sem Íslendingar væru að gera. Gott ef ekki var getið um að frá Bandaríkjunum væri von á mönnum í sérstaka námsferð til að læra hvernig skipa ætti ríkisfjármálum. (Fjmrh.: Komnir og farnir.) Komnir og farnir, segir hæstv. fjmrh. Ég hef áður sagt að ég er ekki í þessum aðdáendaklúbbi og tel að þær breytingar sem gerðar hafa verið hér á skipulagi fjármála ríkisins séu ekki til góðs. Í grundvallaratriðum hefur verið unnið að því að búa í haginn fyrir einkavæðingu. Þótt við sjáum enn bara toppinn á ísjakanum þá held ég að hrifning þjóðarinnar verði ekki mikil þegar ísjakinn allur kemur í ljós. Ég efast þó ekki um að mikið verði klappað hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum og öðrum þeim stofnunum alþjóðlegum sem hvatt hafa til einkavæðingar.