Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:00:16 (801)

1998-11-03 17:00:16# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:00]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eru töluvert yfir 70 þúsund manns. Nýjustu tölur sem ég man eru um 75 þúsund. Margir þeirra eiga rétt í mjög stuttan tíma. Sumir hafa verið opinberir starfsmenn, aðrir ekki. Sumir hafa verið mjög lengi í þessum sjóði.

Formaður BSRB, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem situr í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og forvaltar þar mikið kapítal, er kapítalisti, saknar þess að hann fái ekki áfram að tilnefna menn í stjórn þessa lífeyrissjóðs. En hann segir ekkert um það að þeir sjóðfélagar sem eru í þessum sjóði skuli hafa einhver áhrif á stjórn sjóðsins. (ÖJ: Hverjir?) Sjóðfélagarnir í þessum sjóði sem hvorki eru í BSRB né eru aðilar að Landssambandi lífeyrissjóða eða Sambandi almennra lífeyrissjóða vegna þess að þeir eru í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Þeir hafa í dag engin áhrif á stjórn þess sjóðs sem forvaltar og fer með og ráðstafar því fjármagni sem á að vera þeim trygging í ellinni og þeir eiga allt sitt undir að vel sé að verki staðið.

Ég sakna þess að hér skuli ekki vera lagt til að sjóðfélagar kjósi stjórn. Ég sakna þess líka að ekki skuli vera tekið fram í lögunum að sjóðurinn sé eign sjóðfélaga sinna.

Við ræðum reyndar seinna í dag 16. lið á dagskránni, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þar sem einmitt er lagt til að lífeyrissjóðir verði almenn eign sjóðfélaga og að sjóðfélagar fái að kjósa sér stjórn, líka hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.