Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:08:34 (805)

1998-11-03 17:08:34# 123. lþ. 18.13 fundur 64. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Frumvarp þetta er í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands á árinu 1983, og reyndar einnig í samræmi við frv. um breytingu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga frá 1982.

Sú sem hér stendur flutti þessi frumvörp á sínum tíma, 1982 og 1983, en með frumvörpunum til að mynda um ríkisbókhald og gerð ríkisreiknings var sú kvöð sett á að með ríkisreikningi skyldi fylgja sundurliðað yfirlit um launagreiðslur, bifreiða-, risnu- og ferðakostnað einstakra ráðuneyta, stofnana og verkefna. Markmiðið var að ná fram virkara aðhaldi og eftirliti með fjármunum ríkisins og framkvæmd fjárlaga. Síðan voru árið 1983, eins og ég gat um áður, herra forseti, sambærileg ákvæði sett í lög um ríkisviðskiptabanka.

Ég vil aðeins fara í forsögu þessa máls sem skýrir tilefni flutnings þessa frv. Árið 1986 voru sett ný lög um viðskiptabankana og um Seðlabanka Íslands og þá féllu þessi ákvæði úr lögum en voru sett engu að síður í reglugerð um ársreikning bankanna. Árið 1993 eru síðan sett aftur ný lög um viðskiptabanka. Þar var heldur ekki að finna umrædd ákvæði í lögum og það sem verra var, ekki var sett reglugerð sem skyldaði bankana til að birta áfram upplýsingar um launa-, bifreiða-, risnu- eða ferðakostnað.

Eftir 1993 hættu því ríkisviðskiptabankarnir að birta þessar upplýsingar. En svo öllu sé haldið til haga þá held ég að ég fari rétt með að Seðlabankinn hafi engu að síður birt áfram þessar upplýsingar í ársreikningum sínum en ekki viðskiptabankarnir eftir 1993.

Það varð tilefni fyrirspurnar á Alþingi til viðskrh. frá þeirri sem hér stendur á sl. ári um risnu-, bifreiða- og ferðakostnað Landsbankans, Búnaðarbankans og Seðlabankans að þessi sundurliðun hafði ekki fylgt ársreikningi í fimm ár, en sú fyrirspurn dró síðan dilk á eftir sér, eins og menn þekkja.

Hvað varðar ríkisreikning þá hafa áfram verið birtar upplýsingar um þessa þætti ríkisrekstursins í ríkisreikningum en þau lög sem sett voru um þetta efni árið 1982 hafa verið í fullu gildi þar til lög voru sett um fjárreiður ríkisins um vorið 1997 en þá var fellt út ákvæðið um skyldu ráðuneyta og ríkisstofnana til þess að leggja fram sérstakt sundurliðað yfirlit yfir launagreiðslur, bifreiðakostnað, risnu- og ferðakostnað eins og frv. þetta gerir ráð fyrir.

Út af fyrir sig veit ég ekki, þó að það hafi ekki lagastoð eftir að ný lög um fjárreiður ríkisins voru sett 1997, hvort haldið verði áfram í ríkisreikningi að birta þessa umræddu sundurliðun. Engu að síður taldi ég betra að hafa þetta áfram í lögunum, eins og þetta var áður í lögum um ríkisbókhald, og að þetta verði fastsett í lögunum um fjárreiður ríkisins og nái þá einnig til bankanna. Ég vil vitna til þess, herra forseti, að í lögum um fjárreiður ríkisins frá 1997 segir í 2. gr.:

,,Ríkisaðilar eru þeir sem fara með ríkisvald og þær stofnanir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins.``

Eftir því sem athugað hefur verið fyrir mig þá er mér sagt að ef þessi breyting verður gerð, sem ég hér mæli fyrir, þá haldist áfram sú skylda sem hefur verið allar götur frá 1982 varðandi stofnanir í eigu ríkisins og það sérstaka yfirlit sem birtist með ríkisreikningi. Og eins vegna þeirrar skilgreiningar sem um getur í 2. gr. laga um fjárreiður ríkisins, þá muni þetta, verði frv. að lögum, einnig ná til skyldu viðskiptabankanna, Landsbankans, Búnaðarbankans og Seðlabankans til þess að birta þetta áfram í ársreikningum sínum sem ekki hefur verið gert um a.m.k. fimm ára skeið.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa ítarlegri framsögu um þetta mál. Ég tel að þetta liggi nokkuð ljóst fyrir. Ég vil minna á það, herra forseti, að á sínum tíma, 1982 og 1983, var breið samstaða um það hér á þinginu að þetta yfirlit skyldi framvegis fylgja ríkisreikningi. Það er von mín að svo verði áfram á þessu þingi og að þegar þetta frv. kemur til umfjöllunar í nefnd og til kasta þingsins aftur þá hafi það vítækan stuðning hér á Alþingi.

Það er skoðun mín, herra forseti, að þessi ákvæði muni auðvelda eftirlit Alþingis, þ.e. ef þessi upplýsingaskylda er til staðar, auk þess sem það styrkir allt aðhald með ríkisstofnunum að því er þessa þætti varðar ef stofnanir þurfa árlega að gera grein fyrir sundurliðun á þessum þáttum sem ég hef nefnt.

Ég vil, herra forseti, spyrja hæstv. fjmrh. um afstöðu hans til þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á lögum um fjárreiður ríkisins og hvort hæstv. ráðherra sjái eitthvað sem hann telji mæla gegn því að þetta frv. verði að lögum, vegna þess, herra forseti, að ég er sannfærð um að það muni auðvelda þinginu að hafa aðhald með stofnunum ríkisins og einnig auðvelda fjmrn. að hafa aðhald með þeim.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.