Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:17:53 (807)

1998-11-03 17:17:53# 123. lþ. 18.13 fundur 64. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki fremur en hæstv. ráðherra ástæður þess að þetta féll út úr fjárreiðulögunum 1997, eða fylgdi ekki með því frv. Það má vel vera að engu að síður geti hæstv. ráðherra sett reglugerð sem skyldar ríkisstofnanir til að setja áfram slík yfirlit inn í ríkisreikninginn.

En ég vil minna á að árið 1993 var það ekki gert með reglugerð og eftir það hættu bankarnir, bæði Búnaðarbanki og Landsbanki, að birta þessi yfirlit í ársreikningum sínum. Þess vegna held ég að það sé tryggara að þetta sé bara aðgengilegt og árvisst að þetta birtist með ríkisreikningi frekar en að einstakir þingmenn þurfi að kalla eftir þessu.

Ég trúi ekki öðru og gat ekki heyrt annað á orðum hæstv. ráðherra en að hann gæti verið mér sammála um að gagnlegt sé að hafa slíkt árlegt yfirlit í ríkisreikningi og ekki þurfi að vera mikil fyrirhöfn að láta slíkt fylgja ríkisreikningi á hverjum tíma. Allra hluta vegna þá tel ég best að hafa þetta bundið í lögum eins og hér er lagt til og vænti þess og hef skilning á því að þó að hæstv. ráðherra hafi ekki kynnt sér frv. þá geri hann það og leggi hér hönd á plóginn til að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.