Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:55:42 (817)

1998-11-03 17:55:42# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:55]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég er einn meðflutningsmanna að þessari þáltill. og hef hlustað af athygli á þær umræður sem hér hafa farið fram. Það er rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að þessi hópur er í nokkrum vanda, einkum og sér í lagi þeir sem hafa lágar tekjur. Mér er það minnisstætt sitjandi í heilbr.- og trn. árin 1991--1994 þegar þetta mál var þá til umfjöllunar og tekin var sú ákvörðun að hækka þessar meðlagsgreiðslur allnokkuð. Margir aðilar höfðu þá samband við okkur í heilbr.- og trn. og vöruðu við að hækka þessar meðlagsgreiðslur eins og þá var gert. Það kom svo reyndar á daginn að skuldir þessara aðila hrönnuðust upp fljótlega eftir að lögin höfðu verið samþykkt á hinu háa Alþingi og má sjá glöggt nú að margir aðilar standa ekki í skilum við Innheimtustofnun sveitarfélaga og þar af er meginhlutinn menn sem vilja vera borgunarmenn og vilja standa við þær meðlagsgreiðslur sem þeim ber eins og lög gera ráð fyrir.

Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að hér er fyrst og fremst lögð fram þáltill. þar sem gert er ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að kanna hvernig eigi að leysa þennan vanda, hvernig eigi að halda á þessum málum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er viss vandi á höndum sem snýr bæði að meðlagsgreiðanda og auk þess að þeim sem sér síðan um uppeldið. Það er vissulega vandi á ferð þegar fólk slítur samvistum, það er viss baggi lagður á báða aðila hvað því máli viðvíkur.

Eins og ég sagði áðan kom fjöldi manna til okkar í heilbr.- og trn., líklega hefur það verið árið 1993, og ræddi þessi mál. Þeir höfðu þungar áhyggjur af því að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir væru ekki borgunarmenn þessara greiðslna vegna þess að tekjur þeirra voru ekki það háar.

Komið var inn á það áðan að barnabætur væru tekjutengdar. Það væri vissulega full ástæða til að skoða hvort ekki ætti að tekjutengja meðlagsgreiðslurnar þannig að þeir sem hefðu góðar tekjur ættu þá að greiða hærri bætur.

En hér er bara verið að ræða þessi mál og farið út á hin ystu mörk. Ekki er það ætlan flutningsmanna að sú leið verði farin heldur er fyrst og fremst sú leið nú stigin að skipa nefnd til að reyna að leysa þessi mál þannig að þeir sem við þurfa að búa geti lifað í sæmilegri sátt og borgunarmenn staðið við það sem þeim ber að greiða.

Ég veit að þeir sem hér hafa talað eru sama sinnis og við að eðlilegt er að þetta mál fái þinglega meðferð og nefnd sé kosin til þess að finna flöt á málinu og vænti ég þess að málið fái góða afgreiðslu á Alþingi.