Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:59:40 (818)

1998-11-03 17:59:40# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:59]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki tala neina tæpitungu hér. Það hafa verið skipaðar nefndir. Þessar nefndir hafa þaulkannað stöðu þessara mála, meðlagsgreiðenda, meðlagsmóttakenda, stöðu jöfnunarsjóðs, samskipti sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Það er allt þekkt. Það er allt þekkt í þessu máli. Aðalatriðið er líka þekkt. Ríkisvaldið er eini aðilinn sem getur komið inn og stutt í þessu máli bæði meðlagsgreiðendur og meðlagsmóttakendur og þar með stutt við fjölskyldurnar í landinu og við hag þeirra barna sem búa við þau kjör eða við þær aðstæður að skilnaður hefur átt sér stað eða að foreldrarnir búa ekki saman. En ríkisvaldið er ekki tilbúið til að leggja fram nokkurt einasta fé eða tilhliðranir í þessu efni. Meðan svo er þá gerist ekki eitt eða neitt.