Ráðstafanir í skattamálum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:23:43 (824)

1998-11-03 18:23:43# 123. lþ. 18.15 fundur 170. mál: #A ráðstafanir í skattamálum# (endurákvörðun skatta, breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:23]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt, fyrst við erum að ræða þessi mál, að drepa aðeins á þann skort sem er í gildandi lögum um skyldu hins opinbera til þess að benda mönnum á þegar stefnubreyting verður, til að mynda um skatta, til þess að viðkomandi hafi tök á að notfæra sér það. Þetta á sérstaklega við í því máli sem varð kveikjan að þessu frv. Ég gat þess áðan, herra forseti, að það hefði verið dómur Hæstaréttar sem féll síðla desember 1996. Þar var um að ræða prófmál þar sem leidd var til lykta deila sem hafði staðið a.m.k. í einn og hálfan áratug.

Þar var um það að ræða að sjálfstæður atvinnurekandi óskaði eftir því að úrskurðað yrði hvort hann mætti draga þann kostnað sem hann hafði af því að kaupa sér lífeyri frá rekstrartekjum í atvinnurekstri sínum. Það var alveg klárt að ríkið hafði alltaf hafnað þessu áður þannig að dómurinn fól í sér algjöra stefnubreytingu miðað við fyrri túlkun ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar og mig langar að lesa hluta úr dómsorði, með leyfi forseta:

,,Er það meginregla í skattarétti að öll gjöld sem fara í að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við komi til frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Allar undantekningar frá þeirri reglu verða að vera skýrar og ótvíræðar. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að atvinnurekandaframlag stefnda í eigin lífeyrissjóð falli undir rekstrarkostnað sem heimilt sé að gjaldfæra.``

Herra forseti. Árum saman höfðu skattyfirvöld hafnað þessu. Þegar þessi dómur Hæstaréttar lá fyrir var alveg klárlega ljóst að um stefnubreytingu var að ræða. Þeir sem höfðu hins vegar staðið í þessu stappi árum saman voru yfirleitt flestir komnir á efri ár, þeir voru orðnir lífeyrisþegar. Þeir voru ekki líklegir til þess að fylgjast með málinu og ég er sannfærður um að í þjóðfélaginu eru sennilega hundruð, kannski örfáar þúsundir manna sem ættu með réttu að njóta góðs af þessari stefnubreytingu. En það er líklegt að fjölmargir þeirra viti ekki af því. Ég óttast það. Ég hefði talið heppilegt að hið opinbera mundi leita uppi þessa einstaklinga til þess að gera þeim ljóst hvaða rétt þeir eigi í málinu.

Á síðasta þingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn í mörgum liðum sem tengdist þessu máli til hæstv. fjmrh. Svarið var auðvitað skelfilegt. Það kom í ljós að fjmrn. hafði a.m.k. ekki haft fyrir því að afla sér neinna upplýsinga um þetta. Síðan hefur mér reyndar borist vitneskja um það að þessar upplýsingar liggja fyrir sem er í sjálfu sér líka áfellisdómur yfir fjmrn. að það skuli ekki hafa borið sig eftir þessum upplýsingum.

En ef það er svo að í tilviki eins og þessu liggi fyrir hverjir það eru sem kunna að eiga rétt á að njóta afleiðinga þessarar stefnubreytingar finnst mér að það sé skylda ríkisins að leggja í þann kostnað, sem ekki er mjög mikill, að leita uppi þetta fólk eða gera tilraun til þess, svo að það geti notfært sér þann rétt.

Að öðru leyti, herra forseti, ítreka ég aftur þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni og lýst yfir stuðningi við þetta mál.