Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:27:47 (825)

1998-11-03 18:27:47# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:27]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem ég flyt ásamt hv. þm. Árna R. Árnasyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Gunnlaugi M. Sigmundssyni.

Þetta frv. hefur tvö meginatriði að leiðarljósi. Það er í fyrsta lagi að lífeyrissjóðir verði skilgreindir sem eign sjóðfélaga sinna, og í öðru lagi að sjóðfélagar sem afleiðing af hinu fyrra kjósi sér stjórn beint, þ.e. stjórn fyrir lífeyrissjóðinn sinn.

Herra forseti. Þetta frv. er samhljóða breytingartillögum sem ég flutti ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni við frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem varð að lögum rétt fyrir jólin 1997, eða fyrir tíu og hálfum mánuði. Þá voru þessar brtt. kolfelldar. Sjóðfélagar hafa síðan upplifað ársfundi, sem gert er ráð fyrir í frv. um starfsemi lífeyrissjóða, og upplifað að mæta þar á fundi, reyndar með málfrelsi og tillögurétti en ekki atkvæðisrétti. Margir hverjir hafa upplifað það þannig að þeir séu annars flokks fólk og fái ekki að ráða sjóðnum sínum.

Í lífeyrissjóðunum eru núna langt yfir 300 milljarðar og þeir ráðstafa 80 milljörðum á ári, eða hálfum fjárlögum. Spurningin sem vaknar er þessi: Hver á þetta mikla fé og hver á að ráða því? Hver á að ráðstafa þessum 80 milljörðum og kaupa fyrir þá hlutabréf, skuldabréf og tilnefna menn í stjórnir atvinnufyrirtækja um allt land? Því að lífeyrissjóðirnir eru í auknum mæli að eignast atvinnufyrirtæki og munu í auknum mæli eignast þau og reikna ég með að eftir svona fimm ár muni lífeyrissjóðirnir eiga nánast landið og miðin. Það skiptir verulegu máli fyrir sjóðfélagana hvernig þessu fjármagni er ráðstafað, hvernig það er ávaxtað.

[18:30]

Herra forseti. Þegar breytingartillögurnar voru hér til umræðu varð frekar lítil umræða um þær. Þó sagði hv. þm. Ágúst Einarsson þann 20. des. 1997, með leyfi forseta:

,,Við í stjórnarandstöðunni stöndum heils hugar að frv. Lagðar hafa verið fram af tveimur hv. þm. nokkrar brtt. Við teljum þær ekki vera til bóta og leggjumst gegn þeim.``

Þannig gat hv. þm. talað í nafni allrar stjórnarandstöðunnar væntanlega og var á móti því að sjóðfélagar ættu sjóðina, lífeyrissjóðina sína, og hann var á móti því að þeir mættu kjósa í stjórn. Og hann taldi sig geta mælt fyrir munn allrar stjórnarandstöðunnar, tuttugu og þriggja hv. þingmanna.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði sama dag, með leyfi forseta:

,,Varðandi það að sjóðfélagar eigi sjóðina, þá er það að sjálfsögðu þannig. Þetta er lífeyrissparnaður sjóðfélaganna. En hv. þm. verður á hinn bóginn að átta sig á því að hér er um félagslega sameign að ræða. Það er mjög mikilvægt að menn bæði skilji og virði það. Það felst í eðli hóptryggingarinnar að um félagslega sameign er að ræða.``

Síðan segir hv. þm.: ,, ... enda tel ég að brtt. hv. þingmanna hvað varðar 1. gr. sé að hluta til á misskilningi byggð, þ.e. að því leyti að hún horfir fram hjá þeirri staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru í eigu aðildarfélaganna í formi félagslegrar sameignar.``

Þessi síðasta ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar gengur að mínu mati dálítið út og suður. Hann segir fyrst að sjóðfélagarnir eigi sjóðina en síðan að þeir séu í eigu aðildarfélaganna. Og þá er það spurningin hvort hv. þm. átti við stéttarfélögin, væntanlega stéttarfélag sjóðfélaganna oft á tíðum eða hvort hann átti líka við félög atvinnurekenda, sem eiga vissulega aðild að lífeyrissjóðunum. Mér finnst því fleiri spurningar hafa vaknað heldur en var svarað í þeim orðum.

Herra forseti. Einungis þriðjungur eigna landsmanna er í eigu einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Hinn hluti eignanna er í eigu ríkis og sveitarfélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarfélaga með ójóst eignarhald. Þessi einkaeign hefur minnkað mjög ört á þessari öld með vexti ríkisvaldsins, aukinni þátttöku þess og sveitarfélaganna í atvinnurekstri og myndun lífeyrissjóða. Og líka þeirrar --- ég vil segja áráttu --- að stofna sjálfseignarstofnanir um alls konar atvinnurekstur. Ríkið á m.a. sjúkrastofnanir, skóla, samgöngumannvirki, orkufyrirtæki að einhverju leyti og mörg önnur stærstu atvinnufyrirtæki landsins. Ég nefni bankana og mörg stór atvinnufyrirtæki.

Og síðan er ríkið nýbúið að slá eign sinni á allt hálendið eins og það leggur sig. 40% af öllu landi á Íslandi er ríkið búið að slá eign sinni á með frv. um þjóðlendur, sem varð að lögum. Auk þess á ríkið miklar fasteignir og jarðir. Sveitarfélögin eiga skólabyggingar og hluta í stórum atvinnufyrirtækjum og orkufyrirtæki og miklar lendur. Í þessu samhengi er rétt að benda á að allur orkugeirinn, sem er undir opinberri stjórn að öllu leyti, á eignir af svipaðri stærðargráðu og öll útgerð í landinu. Þetta er svona rétt aðeins dæmi um það hvað miklar eignir eru í eigu hins opinbera.

Síðan koma til alls konar sjálfseignarstofnanir. Það eru t.d. samvinnufélög og mjólkursamlög, sem eru í óljósri eign félagsmanna. Til dæmis á Mjólkursamsalan í Reykjavík 2 milljarða í eignum en það virðist enginn eiga hana. Ef við reiknum með að þúsund bændur hafi lagt mjólk inn hjá Mjólkursamsölunni þá á hver bóndi að meðaltali 2 millj., hann bara veit ekkert af því. Og hann nýtur þess í engu.

Staða bænda hefur verið mjög lök undanfarið. Ef hægt er að tala um fátækt í einhverri stétt þá er það væntanlega meðal bænda og alveg sérstaklega sauðfjárbænda. Þessir bændur eiga t.d. Hótel Sögu, Bændahöllina. (Gripið fram í: En fá ekki frítt kaffi þar.) Fá ekki frítt kaffi þar, sagði hv. þingmaður. Og það er hárrétt. Þeir eiga þarna mjög fallega byggingu í palisander og marmara. En um leið er þetta eignalausasta og fátækasta fólk á landinu og þeim er gert að borga í þessar hallir, bæði hjá Hótel Sögu og Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

Til viðbótar við þau félög sem eru í óljósri eign koma sparisjóðirnir sem eru sjálfseignarstofnanir og að einhverju leyti í eigu stofnfjáreigenda. Það er enginn sem veit hver á þá milljarða sem þar eru geymdir, um 5 milljarðar eða eitthvað slíkt.

Til viðbótar öllu þessu koma lífeyrissjóðirnir sem ekki er á hreinu hver á, og sérstaklega ekki eftir að Alþingi felldi tillögu þess efnis að sjóðfélagarnir ættu lífeyrissjóðina. Þá vaknar spurningin: Hver á þessa 300 milljarða eða þar yfir sem geymdir eru í lífeyrissjóðunum? Það er því orðið mjög brýnt að finna eiganda að öllu þessu fé.

Það er skoðun þeirra sem leggja áherslu á framtak og frumkvæði einstaklingsins --- og það er m.a. stefna míns ágæta flokks, Sjálfstfl. --- að betra sé fyrir þjóðfélagið í heild að eignir séu í eigu einstaklinga. Þeirra sé betur gætt en eigna sem eru í einhvers konar sameign. Þeirra sé verr gætt og verr farið með þær. Ég vil benda á 70 ára tilraun sem gerð var í Sovétríkjunum í því skyni að kanna gildi sameignar. Og ég vil benda á hrunið á þeirri heimsmynd sem varð til þess að ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að ekki sé gott að hafa eignir í sameign.

Það hefur ekki verið ljóst hverjir eru eigendur lífeyrissjóðanna. Sjóðfélagar eiga réttindi hjá sjóðunum en vegna þess að þeir borga yfirleitt 4% og atvinnurekendur 6% þá kann maður að halda og álykta að launþegar eigi 40% af eignum sjóðanna og launagreiðendur 60%. Þessi ályktun er í samræmi við stofnun lífeyrissjóðanna, sem er nokkuð gömul saga og nær allt aftur til Bismarcks gamla í Þýskalandi, sem stofnaði lífeyrissjóði til að létta húsbóndaábyrgðum af atvinnurekendunum. Það er aldagömul siðferðileg ábyrgð sem felst í því að bóndi sem hafði hjú ævilangt í þjónustu sinni bar siðferðileg skylda til að sjá því hjúi farborða ef það missti vinnugetuna sökum elli eða örorku. Þessi húsbóndaábyrgð er grundvöllurinn að því að lífeyrissjóðirnir voru á sínum tíma stofnaðir til að aflétta þessari húsbóndaábyrgð af atvinnurekendum, en iðnbyltingin olli því að mjög erfitt var að framfylgja húsbóndaábyrgðinni gagnvart fólki sem skipti um starf. Þess vegna voru lífeyrissjóðirnir stofnaðir til að taka húsbóndaábyrgðina af atvinnurekendum og þess vegna borga atvinnurekendur þetta iðgjald inn í lífeyrissjóðina.

Síðan gerist það, herra forseti, með uppbyggingu velferðarkerfisins að almannatryggingar taka yfir þessa húsbónda\-ábyrgð, þessa ábyrgð á velferð launþegans þegar hann missir vinnugetu sökum elli eða örorku. Þá um leið flyst þessi framfærsluábyrgð frá atvinnurekendum til ríkis og sveitarfélaga, og um leið dettur niður það hlutverk lífeyrissjóðanna að taka yfir húsbóndaábyrgð atvinnurekenda. Þeir eru allt í einu orðnir eingöngu fyrir sjóðfélagana og þeir eru meira að segja settir á með lagaboði frá hinu opinbera til þess einmitt að taka yfir þessa framfærsluskyldu ríkisvaldsins.

Það er líka þannig að þegar launþegi lýkur starfi hjá atvinnurekanda af einhverjum ástæðum þá dettur ekki nokkrum einasta manni í hug að krefja atvinnurekandann, sem hann vann einu sinni hjá, um að hann sjái honum farborða ef þessi launþegi, sem einu sinni var, lendir í einhverjum ógöngum sökum elli eða örorku. Nei, menn beina kröfunum til sveitarfélaga, ríkisins eða til lífeyrissjóðanna. Og þar er krafan. Þess vegna er rökrétt að segja að lífeyrissjóðirnir séu eign sjóðfélaganna.

Herra forseti. Það er spurning hvort löggjafinn geti blandað sér í málefni lífeyrissjóðanna, sem starfa sjálfstætt, hafa stjórn og hafa verið stofnaðir af aðilum vinnumarkaðrins að mestu leyti. Það er spurning hvort ríkið eða löggjafinn geti blandað sér í málefni lífeyrissjóðanna á þann hátt sem hér er lagt til.

Því er til að svara að með lögunum 1974 og aftur 1980 var komið á skylduaðild að lífeyrissjóðum með mjög einföldum hætti. Vegna þess að í samningunum frá 1969, sem gerðu það að samningsatriði að menn gengju í lífeyrissjóði, þá náðist ekki sá árangur sem menn áttu von á. Fólk gekk bara ekki í lífeyrissjóðina þó að það væri samningsbundið. Sjóðfélagar voru mjög fáir hjá hinum almennu lífeyrissjóðum. Það er fyrst eftir að löggjafinn blandaði sér í málið 1974 að virkilega mikil fjölgun fer að verða á þátttöku launþega í lífeyrissjóðunum. Enda var það þannig að lífeyrissjóðirnir gátu sent lögfræðing til fyrirtækjanna og gert hjá þeim kröfur til iðgjalds samkvæmt lögunum. Menn urðu því að borga samkvæmt lögum frá hinu háa Alþingi.

Þar með vil ég rökstyðja að löggjafarvaldið hafi átt þátt í að lífeyrissjóðakerfið varð svona almennt, og það gefur um leið löggjafarvaldinu heimild til að blanda sér í málefni lífeyrissjóðanna, þessa mikla kerfis sem hefur verið byggt upp með lögum. Jafnframt er það spurning hvort það sé ekki skylda Alþingis að blanda sér í þetta. Hvort Alþingi geti fyrst skyldað alla launþega til að greiða 10% af launum sínum í eitthvert kerfi, einhverja lífeyrissjóði, án þess að gefa þeim færi á að fylgjast með hvernig þeim fjármunum er ráðstafað og án þess að gefa þeim færi á að fylgjast með hvernig þessir fjármunir eru ávaxtaðir.

Ég tel að það sé skylda Alþingis að tryggja að sjóðfélaginn eigi þetta fé, eftir að það hefur verið tekið af honum, og tryggja að hann geti komið að ráðstöfun þess þannig að því sé ekki sólundað í lélegri ávöxtun.

Árið 1980 var svo komið fyrir lífeyrissjóðunum að þeir voru allir meira og minna gjaldþrota. Vegna neikvæðra vaxta og mikillar verðbólgu voru lífeyrissjóðirnir allir meira eða minna gjaldþrota. Þá kemur aftur þetta sama löggjafarvald, hv. Alþingi, hið háa Alþingi, til sögunnar og heimilar verðtryggingu með Ólafslögum. Það bjargaði lífeyrissjóðunum og meira en það. Það kom þeim á svo góðan rekspöl að nú eiga þeir flestir vel fyrir skuldbindingum sínum. Það hefur reyndar gerst á kostnað lántakenda, það hefur gerst á kostnað skuldara og við megum ekki gleyma þeirri hlið medalíunnar sem eru gífurleg vandræði skuldara, gjaldþrot, skilnaðir, missir heimilis o.s.frv. Þessi medalía hefur ekki bara eina glansandi hlið, medalían varðandi það hvernig tókst að byggja upp lífeyrissjóðakerfið. Það hefur verið byggt upp með blóði og tárum skuldaranna.

En nú er svo komið að sjóðirnir eru komnir á mjög góðan rekspöl og þetta eru feiknamiklir fjármunir sem þarna eru í húfi. Ég tel mjög brýnt að eigandi þessa fjár komi að því þannig að fyrir liggi hver stjórni lífeyrissjóðunum, hver eigi þá og hver komi til með að stjórna atvinnulífinu í gegnum lífeyrissjóðina þegar fram líða stundir. Það er ekkert mjög langt í það. Ef menn líta á hluthafalista hjá stærstu fyrirtækjum landsins, Eimskip, Flugleiðum, Íslandsbanka, o.s.frv. þá tróna lífeyrissjóðirnir efstir á hluthafalistanum. Þeir eru nánast að eignast líka sjávarútvegsfyrirtæki í stórum stíl. Þetta er góð þróun en ég tel að það sé mjög brýnt að eigandi fjárins, þ.e. sá aðili sem samkvæmt lögum er skyldaður til að borga í sjóðina komi að þessu fé og geti stjórnað atvinnulífinu í gegnum það.

Herra forseti. Svo ég fari í gegnum nokkrar greinar þá er í 1. gr. kveðið afdráttarlaust á um það að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðinn sinn. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna.`` Punktur. Það er enginn efi um eitt eða neitt.

Í kjölfar þessa er í 2. gr. lagt bann við veðsetningu og framsali og annarri ráðstöfun þessa eignarhluta með þeirri hugsun að baki að hér sé löggjafinn að tryggja að allir launþegar séu tryggðir ef þeir lenda í áföllum sökum elli og örorku, en það væri ekki ef menn gætu veðsett þessa eign sína. Þá væri ekki tryggt að þeir ættu fyrir ellilífeyri þegar þeir verða gamlir.

[18:45]

Svo er í 3. gr. lagt til að að senda eigi sjóðfélögum árlega upplýsingar um eign sína þannig að þeir geti fylgst með henni, hvernig hún vex og dafnar í höndum þeirra stjórna sem þeir hafa sjálfir kosið. En ég vil benda á að að meðaltali eiga allir launþegar á Íslandi um tvær milljónir hjá lífeyrissjóði sínum. Þeir vita það fæstir.

Síðan er í 4. gr. gert ráð fyrir því að sjóðfélagar kjósi stjórn fyrir sjóðinn. Það er ekki sagt nákvæmlega hvernig en að það skuli miðað við áunnin og framreiknuð réttindi í einhverjum hlutföllum.

Nú er það þannig að sjóðfélagar mega mæta á ársfund félagsins með umræðu- og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Eins og ég gat um áðan hlýtur það að vera undarleg tilfinning fyrir mann að koma á fund hjá lífeyrissjóðnum sínum og þegar kemur að því að kjósa stjórn fara einhverjir aðilar inn í bakherbergi og hann fær ekki að koma nærri þeirri aðgerð. Það hlýtur að vera merkileg upplifun.

Ég hef reyndar lent í þessu. Þar sem ég er sjóðfélagi í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda mætti ég þar á ársfund og þá var búið að skipa stjórnina þannig að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því.

Herra forseti. Ég hef farið í gegnum þetta frv. Eins og ég gat um í upphafi er þetta í meginatriðum um það að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðinn sinn og í öðru lagi að þeir fái að kjósa sér stjórn sem afleiðingu af því.

Að lokinni umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og ég segi máli mínu lokið.