Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:47:23 (826)

1998-11-03 18:47:23# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:47]

Össur Skarphéðinsson:

Ég vona, herra forseti, að hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni takist að bíða aðeins í sæti sínu þó að honum sé greinilega orðið mjög mikið mál að koma skoðunum sínum á framfæri í þessu merka máli.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal fór vítt yfir hinar sögulegu lendur og kvaddi til leiksins bæði Bismarck og Marx og Engels og síðan vökvaði hann svörðinn með blóði og tárum skattborgaranna. Þetta var falleg ræða og hún var af einlægni flutt og án efa af miklum vilja til þess að bæta stöðu þeirra sem eiga fé sitt í þessum sameiginlegu lífeyrissjóðum okkar.

Það mætti spyrja gagnvart þeim rökum, sem hv. þm. flytur um nauðsyn þess að aðilar lífeyrissjóðanna komi að stjórnarkjöri, hvort núverandi fyrirkomulag hafi gefist mjög illa. Hv. þm. lýsti því hvernig lífeyrissjóðirnir eru smátt og smátt að komast til valda í efnahagslífi landsmanna og muni innan skamms taka þar öll völd. Vera kynni að sá sósíalismi, sem liggur nú dauður á hinum víðáttumiklu sléttum Sovétríkjanna, kunni þá aftur að rísa upp í gerfi hins samtvinnaða valds íslenskra atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar og taki völdin á Íslandi.

Spurt er: Hefur þetta gefist illa? Svarið er nei. Svarið er nefnilega nei miðað við reynsluna. Ég held að ávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna hafi verið mjög góð. Ég treysti mér að vísu ekki til að fullyrða hvort ýmsir séreignarsjóðir hafi sýnt betri ávöxtun, ég er ekki viss um það.

Þá komum við hins vegar að hinni spurningunni: Er sæmileg afkoma sjóða undir núverandi kerfi rök gegn því að sjóðfélagarnir fái aukin völd í stjórnum sjóðanna? Svarið er nei. Ég held að hér sé spurt um það sem eru sjálfsögð réttindi. Ég er nefnilega sammála hv. þm. um að það á að auka ítök sjóðfélaganna í stjórnum sjóðanna. Ég er sammála honum um að þegar til lengri tíma er litið er það líklegra til þess að tryggja góða afkomu sjóðanna. Það er ekki síst nauðsynlegt í efnahagsumhverfi sem við erum að fara inn í þar sem vextir fara góðu heilli lækkandi, þ.e. góðu heilli fyrir alla aðra en lífeyrissjóðina sem hafa að mörgu leyti ávaxtað fé sitt í bréfum til langs tíma sem munu að öllum líkindum innan skamms fara undir þau 3,5% sem sjóðirnir kveða sjálfir nauðsynlegt til þess að standa undir þeim réttindum sem þeir hafa áskilið sjóðfélögum.

Ég tel þess vegna að hugsun hv. þm. sem birtist í 4. gr. þessa frv. sé hárrétt. Ég get hins vegar ekki stutt frv. og ekki einu sinni 4. gr. í núverandi formi vegna þess að hv. þm. og ég erum ósammála um eitt meginatriðið sem er eignareðli sjóðanna. Ég tel að þessir sjóðir eigi að vera í félagslegri sameign. Ég er þeirrar skoðunar að það kerfi, eins og mér fannst hv. þm. lýsa áðan í vönduðu máli sínu, hafi reynst afskaplega vel. Ég les það sem gengur frá yfirmönnum þessara sjóða og líka þeim sem koma með öðrum hætti að þeim og mér sýnist að það renni allt í sama farveg.

Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi ber af öðrum kerfum. Það kann vel að vera að það sé vegna þess að hið opinbera hafi gripið inn í það með Ólafslögum, með lögunum 1974 og aftur 1997, það getur vel verið að það sé skýringin.

Ég held hins vegar að þetta eigi að vera í félagslegri sameign. Ég er þess vegna ósammála því að menn ættu í einhverri kjörveröld að hafa ítök við stjórnun sjóðanna sem markaðist af áunnum réttindum þeirra. En ég tel hins vegar að sjóðfélagarnir eigi að geta hnekkt hinu samtvinnaða valdi verkalýðsforustunnar og atvinnurekendavaldsins. Ég tel að menn eigi að geta komið á aðalfund lífeyrissjóða sinna og tekið þátt í stjórnarkjöri og þar með haft bein áhrif á hvernig fé þeirra er varið. Ég er sammála þeirri hugsun hjá hv. þm.

Ég gæti vel hugsað mér að vera aðili að máli sem byggðist á einhverri annarri forsendu en þeirri sem gefin er í 2. málslið 1. gr. þessa frv. Ég tel að það væri lýðræðislegra og á allan hátt meira í anda þeirrar samfélagsþróunar sem við búum við þar sem stöðugt er verið að reyna, a.m.k. af hálfu löggjafans, að tryggja vald einstaklingsins á eigin örlög. Ef hægt væri að setja þetta upp með einhverjum öðrum hætti mundi ég styðja þetta.

Ég hef ekki verið viðstaddur fyrir umræðu um þetta en get trúað hv. þm. fyrir því að enginn hefur getað gefið neinar yfirlýsingar fyrir mína hönd í þeim umræðum sem hér hafa komið fram, a.m.k. ekki varðandi þetta inntak sem er að finna í 4. gr. Afstaða mín liggur alveg fyrir eins og ég vona að hv. þm. hafi skilið hér, að ég er sammála honum um að það er nauðsynlegt að auka lýðræði í þessum stjórnum, það er nauðsynlegt að gefa sjóðfélögum kost á að velja stjórnina beint. Ég er ósammála honum um grundvallarforsenduna.

Fyrst ég er kominn hér upp, herra forseti, þá get ég ekki annað en bent á það sem mér finnst hafa verið örlítil þverstæða sem sést í þessu frv. Annars vegar er meginás frv. sá að sjóðfélagarnir eiga að eiga réttindi sín og eftir framlagi þeirra. Með öðrum orðum er grundvallarforsenda frv. að það sem viðkomandi sjóðfélagi leggur inn í sjóðinn er eign hans. Ég hef skilið það þannig og ég skildi það þannig í máli hv. þm., en ég hef kannski misskilið hann. Vegna þess að í 2. gr. er verið að leggja mjög þungar kvaðir á þessa eign. Þá sýnist mér nú gægjast fram einhvers konar stofusósíalismi sem ég taldi að væri síst að finna hjá hv. þm.

En að öðru leyti, herra forseti, hef ég lýst skoðunum mínum til þessa máls. Ég hef fullan skilning og ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem koma fram í 4. gr. en ég er ósammála grundvallarforsendunni.