Minning Magnúsar Torfa Ólafssonar

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:02:58 (834)

1998-11-04 13:02:58# 123. lþ. 19.1 fundur 90#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Magnús Torfi Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar, andaðist í gær, þriðjudaginn 3. nóvember, á heimili sínu hér í borg. Hann var 75 ára að aldri.

Magnús Torfi Ólafsson var fæddur 5. maí 1923 á Lambavatni á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Sveinsson bóndi þar og Halldóra Guðbjört Torfadóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum á Akureyri 1944. Blaðamaður við Þjóðviljann var hann 1945--1962, lengst fréttastjóri erlendra frétta, ritstjóri 1959--1962. Hann var deildarstjóri í Bókabúð Máls og menningar í Reykjavík 1963--1971. Vorið 1971 var hann kjörinn alþingismaður Reykvíkinga fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og sat á Alþingi til 1978, var landskjörinn þingmaður frá 1974, sat á 8 þingum alls. Hann var menntamálaráðherra 1971--1974 og jafnframt félagsmála- og samgönguráðherra nokkra mánuði sumarið 1974. 1. varaforseti neðri deildar var hann 1974--1978. Eftir það var hann blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar 1978--1989.

Magnús Torfi Ólafsson var formaður Alþb. í Reykjavík 1966--1967 og formaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974--1982. Hann átti sæti í menntamálaráði 1967--1971, var skipaður í stjórnarskrárnefnd 1986 og var formaður stjórnar Þjóðhátíðarsjóðs 1986--1994. Formaður sendinefndar Íslands á umhverfismálaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna var hann 1972 og var í sendinefnd Íslands á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1976--1978.

Magnús Torfi Ólafsson hóf störf við blaðamennsku strax að loknu stúdentsprófi. Hann var víðlesinn frá ungum aldri, minnugur með afbrigðum og gerðist fjölfróður um heimsviðburði fyrr og síðar. Nutu þeir kostir sín vel í starfi blaðamanns að fréttum og miðlun fróðleiks af ýmsu tagi. Hann var um fimmtugsaldur þegar hann kom á Alþingi og settist í ráðherrastól. Hann var vel búinn undir störf sín hér, hafði lengi fylgst vel með gangi þjóðmála. Að framgangi mála vann hann af hógværð og festu. Undir lok ráðherrastarfa stóð hann fyrir breytingu á skólahaldi til skyldunáms sem hafði verið nokkur ár á döfinni. Þá tóku grunnskólar við af aldagömlum barnaskólum og gagnfræðaskólum. Hvarvetna þar sem Magnús Torfi Ólafsson kom að störfum var hann vandvirkur og hreinskiptinn.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Magnúsar Torfa Ólafssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]