Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:32:48 (838)

1998-11-04 13:32:48# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. frummælanda fyrir að vekja máls á þessum brýnu viðfangsefnum. Ég ætla í máli mínu að víkja að málefnunum sem snúa að menntmrn. annars vegar og hins vegar stuttlega að dómsmrn. í samræmi við þær fyrirspurnir sem hv. frummælandi lagði fram.

Í menntmrn. hefur fjölmargt verið gert á undanförnum árum til að stuðla að aukinni fræðslu um vímuefni og afleiðingar þeirra. Einnig hefur verið lögð áhersla á forvarnastarf almennt í samvinnu við ólíka aðila innan skólakerfisins. Búast má við að á næstu árum muni þessi fræðsla styrkjast til muna vegna áherslna í nýrri skólastefnu. Við endurskoðun á aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla sem nú er langt komin er sérstaklega hugað að fíknivörnum í skólastarfi ásamt öðrum þáttum sem mikilvægt er að nemendur hafi í farteskinu þegar út í lífið er komið.

Nýja skólastefnan byggir m.a. á því að komið verði á fót nýrri skyldunámsgrein í grunnskóla, svokallaðri lífsleikni, sem hefur það að markmiði að búa nemendur undir líf í nútímasamfélagi, bæði að nýta þau tækifæri sem þar bjóðast en einnig að varast þær hættur sem þar kunna að leynast, þar á meðal í ávana- og fíkniefnum. Sambærilegt lífsleikninám verður einnig skylda á öllum námsbrautum framhaldsskólans. Í námskrám grunn- og framhaldsskóla verða sett fram námsmarkmið þessara greina fyrir hvort skólastig. Litið er á lífsleikninámið sem hreina viðbót við annað forvarnastarf í skólum á vegum félagasamtaka eða sveitarfélaga og með þessu hefur menntmrn. lagt skýra áherslu á mikilvægi þess að skólar leggi sitt af mörkum til að styrkja einstaklinginn og búa hann undir þátttöku í samfélaginu.

Stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefnavörnum hefur verið útfærð sérstaklega fyrir skólakerfið og menntmrn. hefur staðið að fræðslufundum í samræmi við hana. Í kjölfar skýrslu nefndar um orsök og tíðni sjálfsvíga og leiðir til úrbóta fékk ráðuneytið sérstaka fjárveitingu til að vinna að forvörnum í skólakerfinu. Það hefur verið gert með margvíslegu móti og m.a. var komið á teymi fimm sérfræðinga sem hafa lagt á ráðin um forvarnastarf í skólum.

Þá hefur verið skipulögð sérfræðiráðgjöf í forvörnum í framhaldsskólum frá og með haustinu 1997 og sérfræðingar hafa farið í skólana og veitt starfsmönnum þeirra ráðgjöf. Þá hefur verið efnt til námskeiða og ráðstefna fyrir kennara og fleira skólafólk um áhættuhegðun barna og ungmenna og viðbrögð við slíkri hegðun. Ráðuneytið hefur stutt Félag framhaldsskóla við jafningafræðslu, m.a. með þátttöku í verkefnisstjórn jafningjafræðslunnar og með árlegum fjárframlögum. Með þátttöku í jafningjafræðslunni hefur ráðuneytið einnig hvatt framhaldsskóla til að taka frumkvæði í forvörnum. Margir þeirra hafa brugðist vel við og t.d. mótað síðan eigin forvarnastefnu.

Menntmrn. veitti Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála sérstakan stuðning við rannsókn á högum ungs fólks, Ungt fólk '97. Sú rannsókn er mikivægur grunnur forvarnastarfs í skólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Ef ég vík þá sérstaklega að málefnum dómsmrn. þá er frá því að greina að eftir að ríkisstjórnin hafði markað stefnu sína í fíkniefnavörnum í desember 1996 var ákveðið að verja 65 millj. kr. árlega í verkefnið í þrjú ár. Hefur þessari stefnu verið fylgt eftir og samkvæmt fjárlögum 1997 og 1998 var m.a. 35 millj. kr. varið til átaks í löggæslu vegna fíkniefnamála og í fjárlagafrv. ársins 1999 er lagt til að sömu fjárhæð verði varið til þessa verkefnis. Fjármunum þessum hefur m.a. verið varið til tækjakaupa lögreglu og fjölgunar sérhæfðra fíkniefnalögreglumanna víðs vegar um landið. Þannig hafa nýir rannsóknarlögreglumenn í fíkniefnamálum verið skipaðir í Reykjavík, Ísafirði, Eskifirði, Akureyri og Sauðárkróki.

Af hálfu dómsmrn. hefur verið lögð á það rík áhersla að hinum nýju stöðugildum sé eingöngu varið til fíkniefnamála en þar er jafnt átt við rannsóknir fíkniefnamála og forvarna- og fræðslumál. Hefur fjölgun lögreglumanna og endurskipulagning á starfi fíkniefnalögreglu leitt til aukinnar skilvirkni á þessu sviði löggæslunnar.

Þegar skýrslur ársins 1997 um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum höfðu verið kynntar ákvað ríkisstjórnin að grípa þyrfti til enn markvissari aðgerða varðandi ólöglegan innflutning fíkniefna. Var þá ákveðið að dómsmrh. skipaði vinnuhóp sem í eiga sæti yfirmenn tollmála og lögreglumála og fulltrúi utanrrh. Verkefni hópsins er að skoða með hvaða hætti unnt sé að stöðva innflutning ólöglegra fíkniefna til landsins. Enn hefur vinnuhópur þessi ekki lokið störfum en störfum hans miðar vel. Þegar liggur fyrir að settur hefur verið upp formlegur starfshópur sem í eiga sæti fulltrúar ríkislögreglustjóra, ríkistollstjóra, tollstjórans í Reykjavík, lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem vinna að fíkniefnamálum hver hjá sínu embætti. Er hópnum ætlað að skila tillögum um framtíðarskipan formlegs samstarfs milli þessara embætta á sviði fíkniefnamála fyrir 1. des. nk. Með þessu er ætlunin að koma á greiðum og formlegum samskiptaleiðum milli embættanna sem telja verður mjög mikilvægt að séu til staðar svo að samstarf þeirra verði sem skyldi. Þannig ætti betri árangur að nást en nú í baráttunni við innflutning ólöglegra fíkniefna.