Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:45:26 (840)

1998-11-04 13:45:26# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum vikum bankaði áhyggjufullur faðir upp á hjá mér og var að leita liðsinnis þingmanna vegna sonar síns sem er einn hinna fjölmörgu sem bíða eftir því að komast í meðferð. Hinn áhyggjufulli faðir var mjög harðorður og krafðist úrbóta vegna þess að hann óttaðist mjög um barnið sitt og að biðin yrði barninu erfið, enda nóg framboð á fíkniefnum.

Þetta leiðir hugann að því, hæstv. forseti, að við þurfum að greina þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Okkar vandi á Íslandi er kannski ekki meiri eða alvarlegri en vandi annarra þjóða og það er greinilegt af því sem hér hefur verið rætt það sem af er umræðunnar að ýmislegt er verið að gera. En vandinn er til staðar samt sem áður.

Hv. félmn. fékk Braga Guðbrandsson á sinn fund nýlega til þess að fara yfir þessi mál og samkvæmt því sem fram kom hjá honum hefur fyrst og fremst tvennt gerst nú á síðustu mánuðum. Í fyrsta lagi er það sú staðreynd að neysla harðari og hættulegri efna fer vaxandi. Við hljótum að spyrja: Hvaðan koma þau? Hvernig er þessi markaður? Hverjir halda honum uppi? Hvaðan kemur fjármagnið sem rekur þennan markað áfram? Og hvað er verið að gera til þess að stöðva þennan innflutning? Ég held að við hljótum að horfast í augu við að þar er greinilega pottur brotinn þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til.

Í öðru lagi hefur það verið að gerast að neytendum undir 16 ára aldri í langtímaneyslu fer fjölgandi. Það kom fram í máli Braga að yngsta barnið á biðlista er 14 ára gamalt. 14 ára gamalt barn er á biðlista eftir greiningu og meðferð. Þetta eru hörmulegar staðreyndir. Það var þetta tvennt sem Bragi nefndi sem hið nýja í stöðunni sem við stöndum frammi fyrir. En við hljótum að bæta við hinu þriðja, að ekki hefur verið sett nauðsynlegt fjármagn til þess að bregðast við þeirri breytingu sem varð við það að sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár og það er ekki síst sá hluti meðferðarkerfisins sem hefur gersamlega sprungið nú á undanförnum mánuðum.

Sem betur fer er ýmislegt verið að gera og ekki veitir af, en betur má ef duga skal. Við hljótum alltaf að verða að reyna að vega og meta þær aðferðir sem við notum. Ég spyr mig að því hversu vel þær forvarnir dugi sem hér er beitt. Skila þær árangri? Kemst fræðslan til heimilanna? Hvernig er aðstoðinni við foreldra háttað? Hvernig gengur kennurum í skólum raunverulega að greina vanda barnanna? Hafa þeir hreinlega aðstöðu til þess? Ég fagna því að sjálfsögðu að verið sé að efna til námskeiða og beina sjónum að öllum þeim sem koma nálægt börnunum, en eins og ég sagði fyrr þá hljótum við að þurfa að greina vandann og ekki síst það hvað leiði börn og unglinga út í neyslu fíkniefna.

Ég heyrði vitnað í fyrrum forstöðulækni barnageðdeildarinnar sem nefndi að okkur væri gjarnt að tala á hátíðarstundum um allt það sem við viljum gera og tala mikið um forvarnir en minna er gert af því að reyna að greina raunverulegan vanda þeirra barna sem leiðast út í fíkniefnaneyslu? Hvað býr þar að baki? Við hvaða vanda stríða þau börn og unglingar sem lenda í eiturlyfjum?

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að þrátt fyrir það sem verið er að gera þá vantar nýtt heimili í Reykjavík fyrir neyðarvistun. Það þarf að bæta frumgreininguna. Það þarf að brjóta þann flöskuháls sem nú er til staðar og gerir það að verkum að börn og unglingar komast ekki áfram í meðferð og það vantar líka fleiri heimili til langtímavistunar. Við erum langt á eftir t.d. Færeyingum og Grænlendingum hvað varðar fjölda vistunarrýma þannig að þar þarf verulega að taka á.

En enn og aftur, hæstv. forseti, við þurfum að beina sjónum jafnt og þétt að forvörnum. Við þurfum líka að greina vandann, horfa á það sem að baki býr og þær hörmungar og erfiðleika eða annað sem börn og unglingar standa frammi fyrir og leiðir þau út í neyslu þessara efna. Og við þurfum að stemma stigu við því að þessi efni streymi inn í landið. Ég spyr enn og aftur: Hvernig stendur á því að við náum ekki betri árangri þar en raun ber vitni verandi á eyju í Atlantshafinu þar sem í raun og veru ætti að vera svo auðvelt að fylgjast bæði með siglingum og loftferðum? Við þurfum að taka á í öllum þessum atriðum, hæstv. forseti.