Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:51:41 (841)

1998-11-04 13:51:41# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), BG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Bryndís Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Fíkniefnaneysla ungmenna er mikið áhyggjuefni. Telja margir, eins og hér hefur komið fram, að hún fari vaxandi. Svo virðist sem þróunin sé þó í þá veru að hassneysla hafi færst í vöxt og nái allt niður í hóp 14--15 ára ungmenna en jafnframt er talið að harðari efni svo sem amfetamín og kókaín séu í gangi meðal yngri hópa en áður. Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um þessi mál þar sem neysla þessa hóps hefur ekki verið könnuð nýlega. En lögreglan telur að oftar sé lagt hald á efni nú í seinni tíð þó ekki sé um að ræða meira magn en áður.

Hér er á ferðinni skelfileg þróun sem taka verður markvisst á með öllum tiltækum ráðum. Leita verður allra leiða sem gagnast mega í baráttunni við þennan vágest og þar má ekkert til spara. Því miður virðast allt of margir hafa tilhneigingu til að horfast ekki í augu við þennan alvarlega vanda. Samfélagið, foreldrarnir, jafnvel unglingarnir sjálfir loka augunum fyrir staðreyndum og því er hætta á að sífellt fleiri ánetjist og eyðileggi líf sitt.

Nokkur þrýstingur var á sínum tíma á hækkun sjálfræðisaldurs m.a. frá foreldrum ungmenna sem voru í alvarlegri neyslu. Þau þurftu hjálp en hún fékkst ekki. Með hækkun sjálfræðisaldursins í 18 ár bættust því við tveir árgangar í hóp þeirra ungmenna sem hægt var að skylda til vistunar á meðferðarstofnunum. Ekki hefur verið brugðist nægilega við þessari fjölgun með auknu vistunarrými eða öðrum viðeigandi úrræðum og er það mjög miður. En við þessa aukningu lengdust biðlistar eftir þjónustu til muna og er svo komið, eins og fram kom áðan, að biðtími eftir fyrstu greiningu er nú allt að níu mánuðir.

Meðferðarúrræði SÁÁ og annarra frjálsra samtaka eru löngu viðurkennd og hafa skilað mörgum góðum árangri en þau virðist þó fremur henta körlum en konum og ungu fólki sem í dag eru þeir hópar sem eru í mestri þörf fyrir úrræði. Skammtímameðferð með innlögn á sjúkrastofnun og í kjölfar þess allt að mánaðardvöl á meðferðarstofnun reynist ekki besti kosturinn fyrir unga neytendur. Unglingar og fullorðnir eiga ekki samleið í meðferð. Þetta unga fólk lítur ekki á sig sömu augum og fullorðnir alkóhólistar, telur sig ekki vera sjúklinga og hentar því ekki að vera meðhöndlað sem slíkir. Vandi þeirra er annars eðlis. Hann birtist í neyslu en oftast liggja þó að baki ýmis önnur vandamál, félagsleg og persónuleg. Mörg þessara barna koma úr fráviksfjölskyldum, eiga jafnvel foreldra sem einnig eru í neyslu og hafa því ekki eðlilegar fyrirmyndir. Sum hver hafa kannski aldrei kynnst náið heilbrigðu fullorðnu fólki. Þau hafa því ekki nægan þroska til að standast þær kröfur sem eru gerðar til þeirra í þess háttar meðferð. Þau líta á sig sem ,,tapara`` og verða svo áfram við þær aðstæður sem boðið er upp á. Reynsluheimur þeirra er allt annar en hinna fullorðnu og forsendur því gjör\-ólíkar. Tryggja þarf þessum ungmennum viðeigandi meðferð til lengri tíma sem hæfir aldri þeirra og þroska. Rjúfa þarf þann vítahring sem þau eru komin í og aðstoða þau við að leita nýrra leiða á þeirra eigin forsendum. Efla þarf þau til ábyrgðar og þátttöku í samfélaginu svo sem kostur er. Þau þarfnast í raun enduruppeldis og aðstoðar við að ná fótfestu um leið og þau setja sér ný markmið og byggja upp eigið sjálfstraust. Þau þarfnast fræðslu og hjálpar við að komast í nám og störf, markvissrar handleiðslu og eftirfylgdar út í lífið.

Stjórnvöld verða að marka heildarstefnu í málefnum ungra vímuefnaneytenda. Byggja þarf upp markvisst meðferðarkerfi þar sem foreldrum er jafnframt auðveldað aðgengi að ráðgjöf og stuðningi og slíkt gerist ekki nema til þess sé ætlað nægilegt fjármagn. Ákveðin verkaskipting og samræming er nauðsynleg milli þeirra aðila og stofnana sem koma að vanda þessa hóps. Það er ekki vænlegt til árangurs að margir séu að bítast um sömu kökuna og allra síst ef lítið eða takmarkað er til skiptanna. Ef ekkert verður að gert má reikna með að hópur neytenda vaxi stöðugt og fleiri ungmenni ánetjist og verði vandanum að bráð. Fleira þarf að koma til en meðferð og ráðgjöf. Leggja þarf mikla áherslu á öflugt forvarnastarf. Ýmsar leiðir hafa þar verið reyndar en því miður fæstar skilað þeim árangri sem væntingar stóðu til. Væri verðugt rannsóknarverkefni að kanna hvaða aðferðir gæfust best. Stefnumótun og aðgerðir í fíkniefnamálum verður að byggja á traustum grunni upplýsinga og því væri mjög nauðsynlegt að rannsaka vímuefnavandann frá ýmsum hliðum.

Sýnt hefur verið fram á að margir samverkandi þættir hafa áhrif á fíkniefnaneyslu unglinga. Tengsl við fjölskyldu, agi og aðhald foreldra, viðhorf til náms, einkunnir, líðan í skóla og þátttaka í skipulögðu félags- og íþróttastarfi eru allt þættir sem skipta miklu máli.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á mikilvægi góðra fjölskyldutengsla og að unglingar sem eru í nánum tengslum við foreldra, hafa jákvæð viðhorf, vel skilgreind markmið og ákveðinn tilgang eru síður í áhættuhóp. Allt bendir til þess að því meiri tíma sem unglingar verja með fjölskyldunni utan skólatíma og því betur sem foreldrar fylgjast með því hvað börnin þeirra eru að gera, þeim mun minni líkur séu á því að þau neyti fíkniefna. Kjölfesta sem víðast minnkar líkurnar á vímuefnaneyslu.

Því miður eru góð fjölskyldutengsl víða mjög takmörkuð og kemur þar til m.a. mikið vinnuálag og lítt fjölskylduvænt umhverfi. Þar þurfa allir að vera samstiga í að byggja upp vinsamlegt umhverfi og sem bestar aðstæður fyrir fjölskylduna. Forvarnir þurfa að byrja snemma, heima og í skóla. Miklu skiptir að gott samstarf sé milli foreldra og skóla og allra þeirra sem vinna með börnum og unglingum og koma að forvörnum og meðferðar- og æskulýðsmálum. Engar einhlítar lausnir virðast til við fíkniefnavandanum. Ef árangur á að nást í baráttunni við hann verða hins vegar allir að leggjast á eitt. Öflugt forvarnastarf, heildarstefna stjórnvalda og markviss meðferðarúrræði eru nauðsynlegar forsendur þess að takast megi að mæta vanda þessa hóps ungmenna, koma honum til hjálpar og byrgja brunninn.