Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:08:50 (844)

1998-11-04 14:08:50# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir sem þessi og fyrri ríkisstjórnir hafa gripið til í baráttunni gegn neyslu og innflutningi fíkniefna bendir margt til þess að fíkniefnavandamálið hafi frekar vaxið og neyslan færst neðar í aldurshópana. Rannsókn meðal framhaldsskólanema frá 1996 sýnir að tæplega 42% drengja og 21% stúlkna höfðu neytt ólöglegra fíkniefna. Því verður að efla allan áróður og fræðslu meðal unglinga um skaðsemi fíkniefna. Það er ótrúlegt sem fram kom á fundi allshn. í gær með fulltrúum nefndar sem vinnur að aðgerðum í fíkniefnamálum að unglingar standi virkilega í þeirri meiningu, eins og fram kom, að hassneysla sé ekki skaðleg og efnið sé hættulaust.

Könnun sýnir líka að þriðjungur eða 30% 17 ára reykvískra unglinga hafa notað hass. Fram kom m.a. að mikið átak væri hægt að gera með 5--10 millj. kr. framlagi til að fara í herferð og áróður meðal unglinga um skaðsemi fíkniefna sem er varla miklu hærri fjárhæð en meðferð á örfáum fíkniefnaneytendum kostar. Ég býst við að staðan í fíkniefnamálum hafi lítið breyst frá 1996 en þá var lögð skýsla fyrir Alþingi um útbreiðslu fíkniefna. Þar kom fram að hlutur þeirra sem eru yngri en 20 ára og komu til meðferðar hjá SÁÁ hafi tvöfaldast sl. fimm ár og hlutur kvenna yngri en 20 ára, sem komu til meðferðar, þrefaldaðist á þessu tímabili. Að auki hafi fíkniefnaneytendum fjölgað og aldur neytenda lækkað verulega og ekki væri óalgengt að fíkniefnaneysla næði niður í 14 ára aldurshópana. Mjög algengir væru líka dómar vegna neyslu fíkniefna í aldurshópunum 15--19 ára.

Alvarlegasta hlið fíkniefnaneyslunnar kom fram í því að þeir sem neyta fíkniefna hafa sterka tilhneigingu til sjálfsvíga en alls höfðu 30% þeirra sem handteknir voru vegna fíkniefnamála á fjögurra mánaða tímabili á árinu 1995 gert tilraun til sjálfsvíga. Áætlað er að einungis sé lagt hald á innan við 10% þeirra fíkniefna sem flutt eru til landsins. Þetta eru hrikalegar tölur, herra forseti, og engan þarf að undra þó við nú, tveimur árum síðar, séum hér að ræða gífurlegan skort á úrræðum fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu en enn brýnna er nú að fjölga meðferðarúrræðum við hækkun sjálfræðisaldursins.

Auðvitað verðum við að viðurkenna að það er stjórnvöldum og fjárveitingavaldinu til vansa hversu lítið fé er veitt til forvarna, fræðslu og úrræða fyrir fíkniefnaneytendur. Ég vil því spyrja ráðherrana í lokin: Munu þeir beita sér fyrir auknu fjármagni við fjárlagaafgreiðslu til að hægt sé að taka með myndarlegum og afgerandi hætti á fíkniefnamálunum? Og ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hyggist beita sér til að aðstoða meðferðarheimili Götusmiðjunnar, Virkið, sem er með 12 unglinga í meðferð og á nú í miklum fjárhagserfiðleikum. Þeir hafa sent neyðarkall til þingmanna um að þeir verði að loka heimilinu fái þeir ekki aðstoð með þeim afleiðingum að þau 12 ungmenni sem eru á heimilinu, flest 16 og 17 ára, verða án úrræða. Þó ýmislegt hafi verið gert af þessari og fyrri ríkisstjórnum þá er svo margt ógert að stjórn og stjórnarandstaða verða að taka höndum saman nú við fjárlagaafgreiðslu til þess að bæta hér úr.