Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:12:13 (845)

1998-11-04 14:12:13# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda, Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu grafalvarlega vandamáli, máli sem varðar okkur öll og ógnar samfélagi okkar. Í raun má segja að þetta vandamál samþættist inn í líf allt of margra fjölskyldna á Íslandi, fjölskyldna þar sem ungt fólk hefur orðið eiturlyfjum að bráð.

Ég hlustaði á mjög merkilegan fyrirlestur hjá Þórólfi Þórlindssyni prófessor ekki alls fyrir löngu þar sem hann var að tala um skólana á 21. öldinni. Þórólfur sagði að mesta ógn og ögrun framtíðarskólans væru ekki náttúruhamfarir, hernaður og stríð eða kjarnorkuvá heldur eiturlyf og eiturlyfjaneysla. Vandamál þetta er þegar til staðar hér á landi og er því grafalvarlegt vandamál.

Það var átakanlegt um daginn þegar ég fór í Krossinn og á Krossgötur að skoða starfsemi þar. Þar sá ég ungan og glæsilegan dreng sem hafði alheilbrigður farið á sumarhátíð fyrir nokkrum árum. Hann hafði tekið tvær eða þrjár pillur af svokölluðu ecstasy og það var soðinn í honum heilinn eins og forsvarsmaður þessarar stofnunar sagði frá. Í raun og veru ráfaði þessi ungi, glæsilegi maður um en það var ekkert í höfðinu á honum. Þetta var átakanlegt dæmi og það er fullt af svona dæmum í þjóðfélagi okkar. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sporna við þessari þróun.

Ríkisstjórnin er auðvitað að berjast fyrir lausn brýnustu vandamála í þessum efnum eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherrum sem hér hafa talað, félmrh., menntmrh. og heilbrrh. og er það vel. En við getum í raun sagt að það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Við verðum að efla forvarnastarf í landinu eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera. Við verðum að styrkja skólana okkar og fræðsluþáttinn. Við verðum að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf, við verðum að efla þessa þætti vegna þess að þannig getum við hugsanlega komið í veg fyrir þessi stóru vandamál. Þetta er málefni samfélagsins í heild. Þetta mál er hafið yfir flokkspólitík eins og hér hefur komið fram. Gott er að vita til þess að SÁÁ sé enn þá í fararbroddi í aðstoð í þessum efnum og er að hefja byggingu unglingadeildar núna og einnig er vert að þakka öllum þeim einstaklingum og stofnunum sem hafa verið að hjálpa einstaklingum sem eiga í vímuefnavanda fyrir þeirra góða starf. Stöndum saman um að uppræta þetta vandamál í íslensku samfélagi.