Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:25:04 (849)

1998-11-04 14:25:04# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á þessari merkilegu og mikilvægu umræðu. Það er vissulega dapurlegt að horfa á einstakling lenda í þeirri ógæfu að verða fórnarlamb fíkniefnadjöfulsins. Það er ekki einungis ógæfa þessa einstaklings heldur er það mikið álag á fjölskyldu hans alla, nánustu ættingja og vini. Það er með sanni þjóðarböl og það er einmitt þess vegna sem er svo mikilvægt að bregðast við og geta rétt þessum fórnarlömbum hjálparhönd. Ég held að í rauninni sé enginn ágreiningur um það að þjóðin er tilbúin til þess. Því ber að fagna sem vel hefur verið gert. Hér hefur komið fram að fjárveitingar hafa í raun verið auknar. Hér hefur verið mótuð stefna hvað varðar forvarnir og þannig má áfram telja.

Ég leyfi mér, herra forseti, að fullyrða að að óbreyttum forsendum skipti í rauninni ekki höfuðmáli jafnvel þó að fjármunir væru auknir enn frekar.

Hvers vegna verða einstaklingar fórnarlömb fíkniefnadjöfulsins? Það er e.t.v. sú spurning sem okkur ber að svara og ættum að reyna að svara. Þá skulum við líka hafa það í huga að fíkniefnadjöfullinn fer ekki í manngreinarálit, hann getur lent hjá ólíkum þjóðfélagshópum, hann spyr ekki um stétt eða stöðu. Honum getur skotið upp alls staðar. Þetta má með sanni segja að sé vandi þjóðfélagsins alls og ég hygg að þetta snerti að nokkru leyti það gildismat sem almennt er ríkjandi í þjóðfélagi okkar. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að fullyrða að hér ríki um margt agaleysi á flestum sviðum. Við höfum búið ungmennum okkar tiltölulega lítið agað umhverfi. Við sendum þeim tvöföld ef ekki þreföld skilaboð þannig að þau vita í rauninni vart sitt rjúkandi ráð.

Sumir benda á að lífsgæðakapphlaup foreldrakynslóða og lífsgæðakapphlaup almennt í samfélaginu sé ein meginorsökin þar sem fjölskyldur eru uppteknar af veraldlegum gæðum en á meðan gangi gróðapungar og fíkniefnasalar lausir og dæli fjármunum og eiturlyfjum til ungs fólks meðan samfélagið er upptekið af veraldlegum gildum. Það kemur og fram að 50% nemenda í efstu bekkjum grunnskóla telja sig um helgar hafa lítil sem engin samskipti við foreldra sína. Hver er lausnin?

Herra forseti. Íslendingar eru þekktir fyrir að standa saman þegar mikið liggur við. Þeir hafa efnt til samskota um einstök fyrirbrigði, einstök mannvirki svo sem sundlaugar. Ég held að ástæða væri til þess að efna til þjóðarátaks um breytt viðhorf, ný gildi í samfélaginu. Það verður ekki leyst innan Alþingis. Það verður að vera í þjóðfélaginu öllu. Það er hin eiginlega forvörn. Það er forvörnin sem hlýtur að vera meginatriðið. Meðferðarúrræðin ættu að verða minni í kjölfarið.