Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:45:48 (855)

1998-11-04 14:45:48# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), JörG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Jörundur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. síðasta ræðumaður, Guðmundur Hallvarðsson, talaði hér um innflutninginn og það er einmitt það sem mig langar að koma ofurlítið inn á.

Fyrir nokkrum árum starfaði ég á eyju suður í Indlandshafi og var þar um nokkurra mánaða skeið. Þegar ég kom út úr flugvélinni og inn í flughöfnina vöktu athygli mína stór skilti, mjög áberandi á nokkrum tungumálum, sem sögðu að innflutningur á eiturlyfjum eða lyfjum hvers konar væri bannaður og þyngsta refsing væri dauðarefsing með hengingu. Með þessu er ég ekki að segja að ég vilji fara að hengja fólk hér en þetta hafði óneitanlega áhrif.

Ef við settum upp svona skilti hér í flughöfnum og komuhöfnum til landsins og segðum þar á nokkrum tungumálum: Þetta er ólöglegt og þyngsta refsing er, hvað eigum við að segja, 5 ár, 3 ár, 4 ár eða 20 ár. Ég er ansi hræddur um að fólk sem ætlaði sér að koma ólöglega inn í landið með eiturlyf og sæi svona skilti mundi hugsa sig tvisvar um áður en það labbaði í gegn og tæki sjensinn, ef það vissi fyrir fram hver refsingin yrði. Þetta þyrfti að kynna mjög vel og væri ekki dýr framkvæmd. Ég hugsa að ríkissjóður mundi ekki finna mikið fyrir því að koma þessu upp.

Ég spurði lögregluna á staðnum --- ég vann þarna talsvert með lögreglunni líka --- hvaða áhrif þetta hefði haft. Þeir sögðu að það hefði skipt sköpum. Það væri nánast undantekning, sagði mér lögregluforingi, að þarna væri nokkur tekinn með eiturlyf eftir að þetta var sett í lög og skiltin sett upp. Þetta er hugmynd og ég held að það sé þess virði að skoða hana mjög vel.