Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:48:09 (856)

1998-11-04 14:48:09# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur margt mjög gagnlegt komið fram. Ég ætla að minna á nokkur þeirra atriða sem verið hafa til umræðu. Rætt hefur verið um að úttekt vantaði á ýmsum sviðum og rannsóknir, t.d. á því hvaða börn eru í mestri hættu að lenda í vímuefnavanda. Ég ætla að minna á mjög ítarlega og góða rannsókn sem dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir gerði með styrk Forvarnasjóðs um það málefni og það er leiðarljós sem við nýtum. Þórólfur Þórlindsson hefur líka gert mjög vandaðar úttektir á því hvernig sporna megi við vandanum svo eitthvað sé nefnt. Ég ætla enn og aftur að minna á þá merku stefnumótunarvinnu sem unnin hefur verið varðandi geðverndarmál á Íslandi. Þar er bent á í tíu liðum hvað rétt sé að gera varðandi forvarna- og meðferðarmál, bæði geðsjúkra barna og barna sem lenda í þeirri vá sem við erum hér að ræða um. Ítarlegar og miklar rannsóknir hafa farið fram á þessu sviði og eftir þeim mótum við stefnu okkar.

Ríkisstjórnin hefur látið verkin tala hvað þennan málaflokk varðar en það verður aldrei nógsamlega að gert fyrr en við náum utan um þetta málefni þannig að ekkert barn lendi í því öngstræti sem hér er rætt um.