Fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:00:05 (860)

1998-11-04 15:00:05# 123. lþ. 20.1 fundur 130. mál: #A fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem varamaður minn, Árni Steinar Jóhannsson, lagði fyrir hæstv. menntmrh. á dögunum. Hann hefur nú horfið af þingi og á þar af leiðandi ekki kost á að mæla fyrir henni sjálfur.

Spurt er: ,,Hvaða breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi í menntamálaráðuneytinu sem rekja má til þess að rekstur grunnskóla hefur verið færður til sveitarfélaga?``

Það er kunnara en frá þurfi að segja að hugsunin með flutningi verkefna til sveitarfélaganna er ekki síst sú að færa völd, áhrif og störf út um byggðir landsins til viðbótar því að færa þjónustuna nær því fólki sem hennar á að njóta. Það væri fróðlegt, samtímis því að sveitarfélögin hafa byggt upp þjónustu sína og umsýslu á þessu sviði, að fá upplýsingar um þær breytingar sem orðið hafa í kjölfarið á mannahaldi í hinu háa ráðuneyti. Ég geri ráð fyrir að mörgum leiki hugur á að heyra þær upplýsingar sem hæstv. menntmrh. kemur með og sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það.