Rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:11:47 (866)

1998-11-04 15:11:47# 123. lþ. 20.2 fundur 132. mál: #A rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Enn mæli ég fyrir fyrirspurn til hæstv. menntmrh. og vona nú að við megum báðir taka gleði okkar því að hér er vísast á ferðinni ánægjulegra málefni, þ.e. spurning um uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Menn lengir þó mjög eftir því, herra forseti, að niðurstaða fáist í hvenær unnt verði að hefjast handa við uppbyggingu rannsóknaraðstöðu eða rannsóknarhúss fyrir starfsemi háskólans og tengda starfsemi á lóð háskólans á Sólborgarsvæðinu.

Þannig er, herra forseti, að mikill velvilji og hugur heimamanna hefur fylgt því að byggja háskólann upp eins og margendurtekið hefur komið í ljós, m.a. í framlagi bæjarfélaga, Akureyrarbæjar og fleiri sveitarfélaga, í framlagi og stuðningi fyrirtækja á svæðinu, jafnvel einkaaðila sem þegar eru farnir að færa þessari stofnun, þessu óskabarni, miklar gjafir. Eitt af því sem þarna hefur verið boðið fram er fjármögnun á uppbyggingu rannsóknarhúss svo þegar megi hefjast handa við byggingu þess þó fjárveitingar frá ríkisvaldinu komi síðan á einhverju árabili þar á eftir. Akureyrarbær hefur boðist til að sjá um þessa fjármögnun og það tilboð hefur nú legið fyrir um alllangt skeið. Ég hygg að það hafi legið fyrir í um eitt til tvö ár a.m.k. Hins vegar hefur leyfi til framkvæmda ekki fengist hjá stjórnvöldum. Hugsunin er sú að sérstök fjárveiting komi í þetta verkefni til hliðar við þær fjárveitingar á fjárlögum sem eru í uppbyggingu háskólans að öðru leyti. Þær fjárveitingar eru því miður allt of litlar, herra forseti. Þó hæstv. menntmrh. hafi fyrir nokkrum dögum, með miklum glæsibrag og ágætum, tekið skóflustungu að nýbyggingaráfanga fyrir norðan þá eru fjárveitingarnar skv. fjárlagafrv. auðvitað sorglega lágar. Burt séð frá því hefur hugsunin verið sú að hrinda þessum mikilvæga áfanga í framkvæmd með því að annar aðili sjái fyrir fjármögnuninni tímabundið. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.:

Hvað líður byggingu rannsóknarhúss við Háskólann á Akureyri og er þess að vænta að stjórnvöld muni nú innan tíðar veita samþykki sitt fyrir því að framkvæmdir hefjist?