Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:26:09 (872)

1998-11-04 15:26:09# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur beint til mín fyrirspurn sem mér er ljúft að svara. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi hvenær áætlað sé að afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka, samanber yfirlýsingu mína á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins, komi til framkvæmda.

Á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins og reyndar einn\-ig í byrjun september gaf ég þá yfirlýsingu að nú í haust mundi ég stíga fyrstu skref til að afnema skerðingu bóta öryrkja vegna tekna maka. Ég stend við það og nú er verið að ljúka útfærslu þessara breytinga og ég vonast til að þær geti tekið gildi um áramót.

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr í öðru lagi hvað þessar breytingar kosti og hvort gert sé ráð fyrir fjárveitingum í þessu skyni á fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Kostnaður liggur ekki endanlega fyrir en mér virðist vera að um sé að ræða fjárhæð á bilinu 200--250 millj. kr.

Eins og áður hefur komið fram er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til þessara breytinga í frv. til fjárlaga eins og það liggur fyrir hv. Alþingi enda var ekki ljóst við frágang frv. hvað breytingin mundi kosta eða hvernig unnt væri að útfæra hana til þess að tryggja að hún kæmi þeim til góða sem mest þurfa á að halda og að enginn yrði fyrir skerðingu bóta vegna þessara breytinga.

Virðulegi forseti. Ég mun hins vegar beita mér fyrir því að við afgreiðslu fjárlaga verði nauðsynlegt fjármagn ætlað til verkefnisins.