Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:28:00 (873)

1998-11-04 15:28:00# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mannréttindabrot á ekki að afnema í mörgum skrefum heldur í einu skrefi. Ég veit sannast sagna ekki hvaða orð á að nota yfir þá aðför sem gerð er að öryrkjum, þá kjaraskerðingu sem þeir eru látnir sæta við það að ganga í hjónaband. Í Suður-Afríku var talað um apartheid þegar kynþáttum var haldið aðskildum og í apartheid-kerfinu voru blönduð hjónabönd bönnuð. Hér á landi eru öryrkjum reistar efnahagslegar skorður við að búa í hjónabandi og ég spyr hvort ekki væri hreinlegra að banna blönduð hjónabönd, að banna með lögum að fatlað fólk og ófatlað eigist. Það væri alla vega hreinlegra en að búa þessu fólki sömu örlög með fjárkúgun. Ég veit að þetta eru þung orð en það á að nota þung orð um mannréttindabrot og staðreyndir málsins eru einfaldar.

Öryrki getur fengið 63--64 þús. kr. á mánuði. Við það að ganga í hjónaband eru tekjur hans skertar um þriðjung og fara niður í 43 þús. kr. Og ef hann er giftur maka sem er með um meðaltekjur í ASÍ eða BSRB þá fara tekjur öryrkjans niður í 15 þús. kr. Þetta ber að leiðrétta, ekki í mörgum skrefum heldur einu.