Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:36:24 (878)

1998-11-04 15:36:24# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Í Prédikaranum segir að það sé tími til að tala og það sé tími til að þegja. Nú hefur verið varpað ágætu ljósi á þetta mál. Það er misrétti á ferðinni og á þeim málum þarf að taka, ég held að það sé öllum ljóst. Og hinn velmeinandi og ágæti hæstv. heilbrrh. hefur lýst vilja til þess. Það þarf hins vegar að gera innan stjórnarinnar allrar og stjórnarflokkanna. Það er ekki hægt að hlaupa upp í fyrirspurnatíma til að taka svo stórar ákvarðanir sem hér um ræðir. Þannig að það verður að gera svo vel að ... (Gripið fram í: Mánuðum saman.)

Nú ætlar hv. þingheimur að tala hérna ofan í mig. (Forseti hringir.) Mig langar að biðja hv. þingmenn, sérstaklega Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, að hafa sig hæga meðan ég er að ljúka máli mínu. Ég vona að ákvörðun verði tekin í fyllingu tímans og hún verði öldruðum og öryrkjum skapfelld.