Störf við loftskeytastöðina á Ísafirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:42:57 (881)

1998-11-04 15:42:57# 123. lþ. 20.4 fundur 128. mál: #A störf við loftskeytastöðina á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi. Hvert voru þau störf færð sem unnin voru í loftskeytastöðinni á Ísafirði þegar stöðin var lögð niður nú í sumar?

Vegna langtímaþróunar í skipafjarskiptum er svo komið að vinnan á loftskeytastöðvunum er aðeins brot af því sem áður var. Raunar hefur það lengst af verið svo að starfsfólkið hefur mikinn hluta vinnutímans verið að hlusta eftir uppköllum.

Fyrir tveim árum unnu 49 afgreiðslumenn á strandstöðvunum í kringum landið. Á þeim tíma dagsins sem mest var að gera voru samtals ellefu menn á vakt. Nú hefur þessum störfum fækkað í 21 og nú eru mest sex menn á vakt í einu. Þessar fækkanir komu þannig fram að þeir tveir starfsmenn sem unnu við loftskeytastöðina á Ísafirði hættu en störfum þeirra var bætt á loftskeytamennina á Siglufirði. Raunar fækkaði um einn starfsmann á Siglufirði um svipað leyti.

Í öðru lagi. Var þeim starfsmönnum sem unnu við loftskeytastöðina á Ísafirði boðin áframhaldandi vinna hjá Landssíma Íslands hf.? Ef svo var, við hvað og hvar?

Starfsmönnum var báðum boðið starf við starfsstöð upplýsingaþjónustunnar 118 sem rekin er á Ísafirði. Annar starfsmaðurinn þái það en hinn kaus að hætta störfum hjá Landssíma Íslands.

Í þriðja lagi. Er eitthvað í nýrri tækni sem kallar á að þessi störf séu unnin annars staðar en á Ísafirði?

Sameining starfanna á Ísafirði og Siglufirði í sumar var fyrst og fremst vegna hagræðingar í mannahaldi. Þá þegar stýrðu afgreiðslumennirnir á Siglufirði vestfirsku tækjunum að næturlagi og um helgar. Nú á þessu ári eru ekki tæknilegar forsendur til að yfirtaka störf Ísfirðinganna annars staðar en á Siglufirði án verulegs aukakostnaðar. Á næsta ári eða þar næsta verður hins vegar hægt að stýra allri fjarskiptaþjónustu strandstöðvanna frá Reykjavík.

Ég vil svo aðeins bæta því við vegna þess sem hv. þm. sagði um einhæf störf úti á landsbyggðinni, þá er það auðvitað alveg laukrétt að nauðsynlegt er að reyna að að fjölga þeim.

[15:45]

Á hinn bóginn hygg ég að fæstir tali í alvöru fyrir því að halda fólki á launum, hvort sem það er úti á landi eða hér í Reykjavík, við störf sem ekki eru lengur nauðsynleg vegna tækniþróunar og tæknibreytinga. Við erum ekki að færa störf utan af landi til þess að jafnmargir vinni að störfunum í Reykjavík, það er misskilningur hjá hv. þm. að svo sé. Þvert á móti er um það að ræða að tæknibreytingar valda því að ekki er þörf fyrir jafnmarga einstaklinga og áður.

Þetta hefur áður komið fyrir í fjarskiptum. Sú var tíðin að það voru símakonur í Reykjavík. Ég hygg að hv. þm. muni eftir að það voru líka símstöðvar frammi í Svarfaðardal eða frammi í Eyjafirði. Nú eru símarnir orðnir sjálfvirkir og þar með hefur auðvitað þeim símstúlkum eða símamönnum fækkað sem við slík störf unnu. Hér er einungis um slíkt að ræða. Tækninni fleygir fram og sjálfvirkir símar eru komnir í staðinn fyrir handstýringu.