Störf við loftskeytastöðina á Ísafirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:46:27 (882)

1998-11-04 15:46:27# 123. lþ. 20.4 fundur 128. mál: #A störf við loftskeytastöðina á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það geta vel verið tæknileg rök fyrir því að fækka störfum við strandstöðvarnar. Ef það er svo þá verðum við auðvitað að una því þó aldrei megi ganga svo langt að það komi niður á öryggi sæfarenda við landið.

En hitt er ljóst að alveg er hægt að sinna þeim störfum úti á landi sem eru nú unnin í Gufunesi. Þess vegna hefði ég talið eðlilegra af hálfu Landssíma Íslands hf. að leggja niður starfsemina í Gufunesi og flytja þau störf sem þar eru unnin annaðhvort norður á Siglufjörð eða vestur á Ísafjörð. Fyrir því voru margs konar rök, m.a. þau að Landssími Íslands á að vera í sem bestu samstarfi við fólkið úti um landið og það hefði verið þáttur í því að skapa meiri sátt um þetta góða fyrirtæki en ella verður. Þess vegna held ég að það hafi verið skammsýni af hálfu Landssíma Íslands hf. að grípa ekki frekar til þess ráðs að færa störfin úr Gufunesi og annaðhvort norður eða vestur en að gera það á þann veg sem og hér hefur verið lýst.