Störf við loftskeytastöðina á Ísafirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:49:17 (884)

1998-11-04 15:49:17# 123. lþ. 20.4 fundur 128. mál: #A störf við loftskeytastöðina á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að ræður hv. þingmanna snerust um fsp. sem er næst á dagskrá. Ég mun því svara hv. þm. Vestf. undir réttum dagskrárlið í næstu fsp.

En vegna þess sem ... (Gripið fram í.) Ég ber ekki fram fyrirspurnir, hv. þm., heldur svara þeim. Ég vil aðeins út af því sem sagt var minna á að það hefur auðvitað dregist saman líka á Gufunesi eða hér í Reykjavík vegna þessarar tækni og algjör misskilningur hjá hv. þm. ef þeir halda að þar séu jafnmargir starfsmenn og áður. Í skipaþjónustunni í Gufunesi voru 28 afgreiðslumenn fyrir tveim árum. Nú eru þeir 13. Þegar þessi tæknibreyting hefur gengið í garð verða þeir sjö og fjórir í Vestmannaeyjum. Það er því síður en svo að við séum að tala um að við séum að flytja störf til þess að fjölga starfsmönnum Landssímans í Reykjavík ef verið er að gefa það í skyn. Þvert á móti er starfsmönnum að fækka um allt land í þessari grein fjarskipta vegna tæknibreytinga.

Ég hygg að eðlilegt sé ef við viljum flytja störf út á land að reyna þá að snúa okkur að einhverjum þeim sviðum þar sem þörf er fyrir störfin. Að öðru leyti verða þau aldrei til frambúðar og menn una ekki til lengdar í störfum sem þeir vita að hafa ekki þýðingu.