Loftskeytastöð á Siglufirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:59:26 (888)

1998-11-04 15:59:26# 123. lþ. 20.5 fundur 129. mál: #A loftskeytastöð á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., 137. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er hver sé ástæða þess að Landssíminn ætlar að leggja niður loftskeytastöðina á Siglufirði og önnur fsp. sama efnis.

Áður fyrr voru fjarskiptastöðvar eini tengiliður sjómanna við þá sem voru á landi. Að sama skapi voru strandstöðvarnar eini tengiliðurinn frá landi til sjófarenda. Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir í fjarskiptamálum með þeim afleiðingum að verulega hefur dregið úr þörf fyrir starfsemi strandstöðva.

Fyrsta stórbyltingin var tengd NMT-farsímakerfi Landssímans. Með uppsetningu þess, sem nú er að fullu afstaðin, varð sjófarendum á öllum helstu miðum Íslands kleift að hringja í land og unnt var að ná til þeirra með síma. Vegna minni kostnaðar og aukinna þæginda sem þessu fylgdu fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra hættu menn að nota strandstöðvarnar til persónulegra fjarskipta þar sem því varð við komið.

[16:00]

Utan við 50 sjómílur hafa skipin notað strandstöðvarnar. Af þessu leiðir að samtöl frá skipi til lands í gegnum strandstöðvar Landssímans eru nú mun færri en áður. Fyrirsjáanlegar eru breytingar á fjarskiptatækni við skip sem munu draga enn frekar úr notkun strandstöðva en nú er orðið. Sjálfvirk tilkynningarskylda verður að raunveruleika innan tíðar en allt að helmingur vinnutímans hjá starfsmönnum loftskeytastöðvanna hefur verið vegna handvirku tilkynningarskyldunnar og mér er ekki kunnugt um, vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér kom fram, neinar breytingar í þeim efnum.

Nýtt alþjóðlegt fyrirkomulag í neyðar- og öryggisfjarskiptum skipa kemur til framkvæmda. Neyðarköllin verða að mestu send út með því að ýta á neyðarhnapp og ræsa þá sjálfvirkt sérstakan búnað bæði í landi og um borð í öðrum skipum. Þessum sjálfvirku neyðarköllum fylgir oftast aflestur af staðsetningartækjum skipanna. Þetta nýja fyrirkomulag hefur það í för með sér að færri menn geta sinnt neyðarvaktinni af öryggi.

Sjómenn munu í vaxandi mæli fara að hringja um gervihnattafarsímakerfi. Mörg stærri skip í flota Íslendinga eru nú þegar búin Inmarsat-gervihnattabúnaði sem notaður er til skeytasendinga í land þegar skipin fara út fyrir þjónustusvæði NMT-farsímakerfisins. Enn frekari bylting er nú að eiga sér stað á þessu sviði sem mun draga úr eða eyða þörfinni fyrir strandstöðvar á næstu árum. Iridium og Global Star alheimsfarsímakerfi eru nú að sjá dagsins ljós en miðað við fullyrðingar forsvarsmanna þeirra fyrirtækja munu þau verða samkeppnisfær í verði, en hafa ber í huga að símtalaverð í gegnum strandstöðvar á Íslandi eru miklu lægri en í gegnum strandstöðvar í nágrannalöndum okkar. Auk þess gefur Inmarsat-gervihnattakerfið sem nú er í mörgum skipum sem fara út fyrir þjónustusvæði farsímakerfis Landssímans, möguleika á talfjarskiptum.

Framfarir í fjarskiptamálum sjómanna hafa valdið því að notkun strandstöðva Landssímans hefur verulega dregist saman á undanförnum árum. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði og Siglufirði hefur verið mikið tap á rekstri strandstöðvanna. Þar sem líklegt er að sjófarendur muni nýta sér nýjungar í fjarskiptamálum er nauðsynlegt að draga eins mikið úr allri starfsemi og kostur er svo draga megi úr rekstrarkostnaði stöðvanna.

Rætt hefur verið um að leggja afgreiðsluna á Siglufirði niður á miðju næsta ári. Að sögn forstjóra Landssímans er nú hins vegar ljóst að af lokun hennar verður ekki á næsta ári. Fyrri áform miðuðust við að þróunin í fjarskiptum yrði afar hröð, en henni mun seinka einkum af þrem ástæðum.

Global Star gervihnattakerfinu seinkar um u.þ.b. hálft ár vegna óhapps við uppskot tíu gervihnatta af rúmlega 50.

GMDSS-neyðarfjarskiptabúnaður í skip fæst ekki afgreiddur á réttum tíma. Þetta er alþjóðlegur vandi og skapast af því að framleiðendur hafa ekki undan þegar öll stærri skip heimsins þurfa búnað á skömmum tíma.

Vandamál í flugfjarskiptakerfum sem tengjast árinu 2000 munu taka mikinn tíma í fjarskiptastöðinni í Gufunesi á fyrri hluta næsta árs. Þess vegna mun tengingu radíóbúnaðarins sem tengist Siglufirði inn á afgreiðsluhnútinn í Gufunesi seinka eitthvað.

Strandstöðinni á Siglufirði verður því ekki lokað á næsta ári eins og gert hafði verið ráð fyrir og mun dragast fram eftir árinu 2000 að það verði gert, og mér þykir sjálfsagt og einhlítt að nota tímann þangað til til þess að Landssíminn geti í samráði við heimaaðila athugað hvort ekki megi koma upp annarri starfsemi í stað þessarar.

Spurt er: Verða þau störf sem unnin eru við stöðina færð annað og þá hvert?

Eins og áður er fram komið hefur störfum við strandþjónustuna fækkað vegna tækniþróunar og tækninýjunga sem leiddi til þess að ekki var lengur þörf fyrir þau. Þetta er sama þróun og orðið hefur á öðrum sviðum fjarskiptatækninnar. Þó munu starfsmenn í Gufunesi og í Vestmannaeyjum yfirtaka neyðar- og öryggishlutverk strandstöðvanna. Tveir til þrír menn verða á vakt samtímis eða samtals 13 starfsmenn.

Spurt er: Hefur þeim starfsmönnum sem starfað hafa við loftskeytastöðina á Siglufirði verið boðin áframhaldandi vinna hjá Landssímanum? Ef svo er, við hvað eiga þeir þá að starfa og hvar?

Starfsmönnum hefur verið sagt að Landssíminn vilji gera sitt besta til að hjálpa þeim að finna ný störf. Ef þeir sækist eftir starfi sem er á lausu hjá Landssímanum hvar sem er á landinu verði það skoðað með jákvæðu hugarfari. Þeir voru upplýstir um að aðrir starfsmenn strandstöðva sem hafa misst vinnu sína hefðu farið í eftirtalin störf hjá Landssímanum:

Upplýsingaþjónustan 118, þrír á Ísafirði.

Flugfjarskipti, fimm í Reykjavík.

Þjónustumiðstöð, tveir í Reykjavík.

Viðhald og uppsetningar, einn í Reykjavík.

Það kom fram að verulegar líkur væru á að hægt verði að útvega önnur störf fljótt við upplýsingaþjónustuna 118 á Akureyri, við þjónustumiðstöðina í Reykjavík og við flugfjarskipti í Reykjavík. Einn starfsmannanna á Siglufirði hefur talið hag sínum best borgið með því að hætta án uppsagnarfrests þar sem hinir starfsmennirnir féllust á að lengja vinnutíma sinn til að sinna hans vöktum og var orðið við þeirri beiðni. En eins og ég sagði áðan þá eru nú aðstæður breyttar þar sem sýnilegt er að ekki kemur til þessarar uppsagnar fyrr en ári síðar en ætlað var og ég tel rétt að nota tímann til þess að athuga hvort hægt sé að finna önnur störf fyrir þessa starfsmenn.

Að síðustu er spurt: Er eitthvað í nýrri tækni sem kallar á að þessi störf séu unnin annars staðar en á Siglufirði?

Þessi mikla fækkun starfsmanna og sameining starfa krefst þess að tæknilegur frágangur sé öruggari en áður. Í Gufunesi þar sem Landssíminn rekur fjarskiptaþjónustu fyrir flugið yfir Norður-Atlantshafið í samvinnu við Alþjóðaflugmálastofnunina er mikið öryggi í öllum frágangi. Þar eru tvær varavélar fyrir rafmagn, símalínurnar koma úr tveimur áttum og tæknimenn á vakt eða bakvakt. Í Gufunesi er nú þegar tæknihnútur fyrir skipaþjónustuna sem verður nógu stór til að þjóna öllum radíóbúnaði á landinu eftir að áðurnefndar breytingar verða komnar til framkvæmda.

Uppbygging annars tæknihnúts kostar um 80--100 milljónir í fjárfestingu auk rekstrarkostnaðar. Ef við viljum á annað borð koma til móts við landsbyggðina til að skapa þar störf þá tel ég að svo mikilli fjárhæð yrði betur varið með öðrum hætti en að reyna að verja fjögur störf með þvílíkum fjármunum.

Mesta öryggi fæst með að vera með a.m.k. einn afgreiðslumann í skipaþjónustunni á vakt í Gufunesi sem næst tækjabúnaði tæknihnútsins og annan starfsmann á álagstímum. Ákveðið var að hafa einn starfsmann á vakt utan Reykjavíkur. Valið stóð á milli Vestmannaeyja og Siglufjarðar. Ástæða þess að Vestmannaeyjar urðu fyrir valinu er samnýting starfsmannanna og tekjur fyrir loftskeytastöðina þar sem starfsmennirnir vinna einnig fyrir Cantat 3 sæsímastrenginn. Verulegur kostnaður fylgir því að láta þriðja mann\-inn, sem bætist á vaktina hluta dags á virkum dögum, vera á þriðja vinnustaðnum.

Ég vil, herra forseti, taka fram að þær tæknilegu upplýsingar sem koma fram í þessu svari eru frá Landssímanum hf.