Loftskeytastöð á Siglufirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:07:52 (889)

1998-11-04 16:07:52# 123. lþ. 20.5 fundur 129. mál: #A loftskeytastöð á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., 137. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég veit að hæstv. samgrh. er önnum kafinn maður. En mér þykir það með ólíkindum hversu illa hann fylgist með þróun í nútímatækni á þessu sviði. Það eru ekki nema nokkrar vikur eða a.m.k. ekki meira en tveir mánuðir, hygg ég, frá því að þessi ákvörðun var tekin um að loka stöðinni á Siglufirði, en nú kemur hæstv. ráðherra og segir okkur að sem betur fer hafi verið hætt við það vegna þess að komið hafi í ljós að ekki voru tæknilegar forsendur fyrir því. Þetta þykir mér bera vitni um handarbakavinnubrögð í þessu ráðuneyti.

Hæstv. ráðherra segir hérna sjálfur: ,,Er ekki rétt að nota 80--100 milljónir, sem ella færu í að verja störf fjögurra manna á Siglufirði, í eitthvað annað?`` Það er bara alveg hárrétt, herra forseti. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Er hann reiðubúinn til að lýsa því hér yfir að þessum peningum sem á að spara með þessum hætti verði varið til þess að efla atvinnulíf á Siglufirði?