Loftskeytastöð á Siglufirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:13:46 (892)

1998-11-04 16:13:46# 123. lþ. 20.5 fundur 129. mál: #A loftskeytastöð á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., 137. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:13]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er alltaf gaman að heyra hinn ópólitíska ritstjóra taka til máls í þingsalnum. Auðvitað kom það fram í máli hv. þm. að hann var mjög óánægður yfir því að ekki skuli koma til þess að strandstöðinni á Siglufirði skuli lokað nú á næsta sumri heldur muni það dragast um eitt ár a.m.k., og gat hann ekki leynt ólund sinni af þeim sökum sem er í raun og veru í samræmi við málflutning hans hér fyrr og síðar.

Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði áður að hér er einungis um það að ræða að tækniþróun veldur því að störf breytast hjá Landssímanum, færast til. Sums staðar bætast við ný störf, annars staðar fækkar þeim og það er, eins og ég sagði áður, óhugsandi að hægt sé að hafa nákvæmlega jafnmörg störf við handvirka símaþjónustu og áður. Á hinn bóginn mun ég, eins og ég sagði, ræða það við Landssímann hvort hann ásamt heimamönnum geti unnið að því að koma því svo við að þeir starfsmenn sem hér eiga í hlut geti komið að öðrum störfum á Siglufirði þegar að því kemur á árinu 2000 að strandstöðinni verði lokað.