Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:23:56 (895)

1998-11-04 16:23:56# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessa fyrirspurn hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Í sambandi við fræðslu til erlendra ferðamanna má minna á nýlega grein þar sem kom fram að fjöldi erlendra ferðamanna kemur að Reykholti í Biskupstungum og er þá að leita að Reykholti í Borgarfirði. Þá má minna á kostnaðarsama leit að fólki, t.d. á Drangjökli fyrir nokkrum árum þar sem fólk hafði enga vitneskju um að þarna væri það á hættuslóðum. Þarna var um hreina vanþekkingu að ræða og engar upplýsingar.

Sérstaklega þarf að brýna fyrir fólki að láta vita ef farið er út fyrir hefðbundnar leiðir og láta vita af áætlunum sínum, t.d. þegar farið er á fjöll og jökla. Upplýsingapoki má vera til með lágmarksupplýsingum til ferðamanna. Þetta mundi draga úr slysum og ýmsum vandræðum auk þess að kynna betur perlur landsins. Málið er því brýnt með tilliti til þeirrar aukningar ferðamanna sem hér hefur orðið.